þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Kaupfélagsstjórinn vill háskóla í Hnífsdal

Kaupfélagsstjórinn, Kristján "Hannibal" Kristjánsson, berst nú fyrir því að Háskóli Vestfjarða verði staðsettur í Hnífsdal. Kaupfélagsstjórinn tók sér örstutt hlé frá því að tjá sig á Netinu, og veitti Sleikipinnavefnum stutt viðtal: "Það hefur verið einhver útbreiddur misskilningur hjá Kristni Hermanns og þessum kverólöntum, að Háskóli Vestfjarða eigi að vera staðsettur á Ísafirði. Þessu er ég bara algerlega ósammála. Ég hef trú á því að Össur byggðamálaráðherra styðji mig í þessu enda studdi ég hann í formannsslagnum, þó Lúlli frændi hafi stutt konuna hans Hjörleifs. Össur þekki ég náttúrulega ágætlega í gegnum Samtök áhugafólks um bræðisköst," sagði Kaupfélagsstjórinn laufléttur að vanda, um leið og hann hækkaði verðið á ástralska kengúrukjötinu.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Undirbúningstímabilið hafið hjá Jóni Smára

Ísfirðingurinn, Jón Smári Jónsson, vinnur nú að því hörðum höndum að byggja sig upp fyrir Skíðavikuna, sem mun vera helsti fengitími Jóns. Til Jóns hefur sést æ oftar í Laugum að undanförnu, auk þess sem þessi mikli kaffiunnandi er farinn að panta jurtate í æ ríkari mæli á kaffihúsum borgarinnar. Kappinn hefur ekki látið þar við sitja heldur er hann einnig byrjaður að stunda sjósund af miklum móð og ævintýraferðir úti í óbyggðum þó Frónið sé enn í vetrarbúningnum. Talið er að Jón sé þessa dagana undir mjög sterkum áhrifum frá kvikmyndinni Into the wild og því spennandi að sjá hvernig sú taktík mun virka fyrir hann í Skíðavikunni sem fram undan er.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Stebbi gerir kröfu í dánarbú Fischers

Stefán Andrésson Arnalds, íþróttakennari/fjárfestir, hefur bæst í hóp þeirra sem gera kröfu í dánarbú skáksnillingsins Bobbys Fischers. Stefán staðfesti þetta í laufléttu spjalli við Sleikipinnavefinn: "Jú jú þetta er rétt. Nú þegar hlutabréfamarkaðurinn er erfiður þá verður maður að ná sér í tekjur eftir öðrum leiðum. Það er mikil fylgni á milli lögfræðimenntunar og skákáhuga, þannig að ég þekki marga lögfróða menn sem hafa ráðlagt mér í málinu." Krafa Stefáns gengur í stuttu máli út á að hann hafi sigrað Fischer í skák á Netinu þar sem þeir hafi teflt upp á peninga. Er Stefán þar með annar skákmaðurinn í heiminum sem gengur fram fyrir skjöldu og fullyrðir að hann hafi teflt hefðbunda skák við Fischer á Netinu, en hinn er Englendingurinn Nigel Short." Ég er handviss um að þetta var Fischer. Ég vann hann í tuttugu leikjum sem kom mér reyndar nokkuð á óvart en ég er bara greinilega svona góður. En svo borgaði hann aldrei," sagði Stefán ennfremur.

föstudagur, febrúar 08, 2008

Skilnaður skekur Víkina

Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Sleikipinnavefurinn hefur heimildir fyrir því að slitnað hafi upp úr samstarfi hins ástsæla söngdúetts Ástu Bjarkar og Magnúsar Más. Lengi hefur verið talið að dúettinn væri einungis í pásu en nú þykir allt benda til þess að hann sé hættur. Fyrirhugaðir búferlaflutningar Magnús til Parísar með haustinu þykja renna stoðum undir þessar sögusagnir. Til stendur að hleypa af stokkunum undirskriftarlista á Netinu í því skyni að hvetja dúettinn til þess að taka upp þráðinn á ný. Þangað til hægt að senda Magnúsi póst á magnus@innovit.is ef einhverjir vilja reyna að telja honum hughvarf.

Dúettinn gerði allt vitlaust úti um landið og miðin í kringum 1990 en hefur ekki komið saman síðan. Einungis kom út ein plata með þeim Ástu og Magnúsi en helsti slagari plötunnar hét "Á einskinsmannseyju" sem þau fluttu meðal annars í sjónvarpsþættinum Á tali hjá Hemma Gunn. Lagið mun hafa skilað höfundi sínum gífurlegum tekjum í stefgjöld.