föstudagur, apríl 25, 2008

Mótmæli í Bolungarvík

Friðsöm mótmæli fóru fram við ráðhúsið í Bolungarvík í dag. Fermingarbræðurnir Ragnar Ingvarsson og Róbert Daníel Jónsson stóðu fyrir mótmælunum. Þeir tjáðu fjölmiðlafólki að þeir væru að mótmæla fangelsisdómi sem kveðinn hafi verið upp yfir bandaríska leikaranum Wesley Snipes í gær. Ragnar sagði Snipes hafa haft mikil áhrif á sig í gegnum tíðina en þeir hefðu eytt ófáum stundum saman þar sem vondu mennirnir hefðu fengið réttláta meðferð. Róbert Daníel tók undir þetta og sagði myndina "White men can´t jump" hafa hjálpað sér að taka þá ákvörðun að leggja körfuknattleiksskóna á hilluna á sínum tíma. Róbert vildi jafnframt koma því að framfæri við fjölmiðlafólk að það sé misskilningur að Hálfdán Daðason hafi einhvern tíma verið betri en hann í fótbolta.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Meirihlíð er sprunginn !

Bærinn Meirihlíð í Bolungarvík sprakk í loft upp í gærkvöldi. Mikil mildi þótti að engin slys skyldu verða á fólki.

- Jónas Guðmundsson, formaður almannavarnarnefndar, sagði í samtali við fjölmiðlamenn að hættan væri liðin hjá í bili.

- Grímur Atlason, ábúandi á bænum, telur að tjónið sé þó nokkuð og um persónulegt áfall sé að ræða fyrir sig: "Ég flutti hingað fyrir tveimur árum og keypti mér þetta hús. Nú er maður bara í lausu lofti."

- Anna Edvardsdóttir, bæjarfulltrúi, segir málið alvarlegt og staðan á húsinu hafi ekki verið ásættanleg.

- Elías Jónatansson, bæjarfulltrúi, sagði Grím hafa hringt tvisvar í sig í gærkvöldi, með þriggja mínútna millibili, í leit að húsaskjóli.

- Soffía Vagnsdóttir, bæjarfulltrúi, kom hins vegar af fjöllum þegar Sleikipinnavefurinn hafði samband við hana og hafði ekkert heyrt af sprengingunni. Hún bauð hins vegar blaðamann velkominn í hina frægu kjötsúpuveislu á Hesteyri í sumar, þar sem skyndilega hefði fækkað um einn á gestalistanum.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Ráðstefnan: Hinn árlegi hrunadans Arsenal - hvað er til ráða ?

Síðunni hefur borist tilkynning sem hér verður komið á framfæri:

Næstkomandi sunnudag 13. apríl verður haldinn ráðstefnan: "Hinn árlegi hrunadans Arsenal - hvað er til ráða ?" í húsakynnum fyrirtækisins Jakob Valgeir í Bolungarvík.

Eftirtaldir flytja erindi:

- Jón Steinar Guðmundsson: Smíða þarf nýtt lið.

- Þorlákur Ragnarsson: Hvenær tekur Arsenal flugið?

- Magnús Pálmi Örnólfsson: Hluthafar í Arsenal - seljið strax!

- Jóhann Ævarsson: Sparsla þarf í götin í Arsenal vörninni.

Umræðunum stjórnar Guðbjartur Flosason sem þegar hefur boðið Philippe Senderos pláss úti á sjó.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Biggi lögsækir Vegagerðina

Birgir Olgeirsson grunnskólakennari og lögspekingur hefur eitthvað verið að taka að sér að ryðja Óshlíðina í vetur. Nú virðist þó sem samstarf Birgis og Vegagerðarinnar sé í uppnámi því Birgir hefur kært fyrirtækið fyrir gáleysi. Forsaga málsins mun vera sú að Birgir hafi einn morguninn lagt af stað til Flateyrar þar sem hann er að setja saman hljómsveit með grunnskólakrökkum rétt eins og í myndinni School of rock. Fljótlega sótti svefn að Birgi við stýrið enda illa sofinn eftir ævintýri næturinnar. Í svefnrofanum keyrði Birgir niður skilti frá Vegagerðinni í námunda við vitann sem átti að þjóna þeim tilgangi að loka hlíðinni. Samkvæmt heimildum vefjarins mun Birgir nú hafa farið fram á að Vegagerðin setji upp viðvörunarskilti með fimmtíu metra millibili. Slík ráðstöfun henti mjög vel þegar menn séu að dotta við stýrið. Birgir neitaði að tjá sig um málið við Sleikipinnavefinn.