fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Sagði sig úr lífsgæðakapphlaupinu!

Kormákur Kristjánsson, spjátrungur, sagði sig formlega úr lífsgæðakapphlaupinu í gærdag.

„Þetta var bara komið nóg. Maður var farinn að dragast aftur úr. Ég eignaðist td aldrei silfurgráann bíl og missti alveg af fótanuddstækjunum. Ég hef notast við Betamax videotæki og hef verið með símboða í stað GSM síma. Ég bara nenni ekki að eltast við þetta lengur og er hættur,“ sagði Kormákur við VSP.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Doddi Tangó laus úr gæsluvarðhaldi

Þorgeir Tangó Jónsson er nú laus úr gæsluvarðhaldi í Þýskalandi. Þorgeir komst í hann krappann á dögunum er hann fékk sér Kebeb á tyrkneskum veitingastað í Dusseldorf. Dreif þá að víkingasveit þeirra Þjóðverja sem vildu vita allt um innkaup innkaupastjórans. Leituðu þér af sér allan grun að sænsku munntóbaki en gripu í tómt. Mikill fjöldi Þjóðverja og ferðamanna flykktist að til þess að fylgjast með sem töldu víst að allur hamagangurinn stafaði af því að verið væri að ljúka við tökur á kvikmyndinni Mr. Bean 2. ,,Ja maður var víst í jakkanum með bótunum á olnbogunum" sagði Tangóinn léttur í bragði er hann var laus úr prísundinni. ,,Þetta var allt saman leiðinda misskilningur. Maður man kannski ekki allt úr þýskutímunum hjá Svavari í MÍ þannig að heimamennirnir misskildu mig eitthvað. En ég fékk að eiga eina M-16 til minningar og er að spá í að troða henni í Machintos dollu og taka með heim. Tíhíhíhí"

Trausti iðrast

Blaðamanninum Trausta Salvari Kristjánssyni tókst á dögunum að ná Feministafélaginu upp á afturlappirnar með kvikmyndagagnrýni í blaðinu Blaðið. Félagið hefur nú sett viðskiptabann á Trausta sem er fullur iðrunar: "Orðatiltækið með búllurnar í Hull og það sem þar gengur á er nú ekki komið frá mér. Þetta var til dæmis notað í Heilsubælinu. En ég er alveg tilbúinn til þess að koma til móts við sjónarmið Feministafélagsins og gæta tungu minnar í framtíðinni. Því enginn maður er Eyland, eða Eyja í þessu tilfelli. Ég er auk þess byrjaður að blaða í gegnum boðskap Carole Pateman og Anne Philips en eins og íþróttafréttamaðurinn sagði hér um árið: Lifandi mönnum er best að batna.," sagði Trausti í hjartnæmu viðtali við Sleikipinnavefinn sem nú er einni færslunni um Kolbrúnu Halldórsdóttur fátækari.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Tungutak

Guðbrandur Eiríksson, forkólfur,aðili og gárungur, varð milli steins og sleggju á sjötta tímanum í gær. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Guðbrandur lendir í svipuðu óhappi:

“Nei, ég varð milli stafs og hurðar á skíðaferðalagi í hitteðfyrra og síðan varð ég milli skers og báru á Mallorca ´97. Þá óð ég úr öskunni í eldinn á áramótabrennu ´89 og hellti síðan olíu á eldinn ári síðar. “

Guðbrandur segist samt hvergi banginn með framhaldið:

“Nei nei, sá hlær best sem síðast hlær. En manni vefst ekkert tunga um tönn. Það er jú bágt að berja höfðinu í steininn, en sjálfs er höndin hollust,” sagði Guðbrandur kankvís á svip.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Megavika

Langar biðraðir eftir matvælum myndast nú víðsvegar á landinu. Hægt er að líkja ástandinu við kreppuna miklu þegar skömmtun matarmiða var allsráðandi. Hinsvegar er ekki um skort á mat að ræða í þessu tilviki, heldur skort á flatbökugerðarmönnum. Já, það er komin svokölluð Megavika Dominos, sem þýðir að öngþveiti, æðabunugangur og offors ræður ríkjum í þjóðfélaginu.

Bólugrafnir unglingspiltar með spangargleraugu og álkulegar táningsstúlkur með þvalt enni, keppast um að þjóna sísvöngum neytendum og hafa vart undan. Allar flatbökur lækka um helming í verði og kúnnahópurinn vex um ¾. Allir græða. Dominos fær fullt af peningum í kassann og frónarbúar fullnægja sístækkandi keppum sínum sem sífellt vilja meira og meira. Þegar komið er miklu meira en nóg og viðkomandi kemst ekki út í bíl til að sækja flatbökuna fyrir fitu, þá er kominn tími á maga-aðgerð og viðkomandi getur byrjað upp á nýtt. Hver sagði svo að lífið væri flókið?


Til umhugsunar:

Af hverju er Dominos ekki með Megaviku í hverri viku? Hafa þeir virkilega ekki fattað gróðavonina?