þriðjudagur, júlí 19, 2005

Trausti í Gestgjafanum

Júlítölublað Gestgjafans er komið út. Þar kennir ýmissa grasa en mesta athygli vekur umfjöllun og viðtal við húsföður í Eyjafjarðarhreppi; Trausta Salvar Kristjánsson. Trausti hefur um allnokkurt skeið farið framarlega í tilraunum með mat og drykk og gefur hann lesendum innsýn í þennan tilraunaheim sinn. Trausti miðlar til dæmis af reynslu sinni er hann bjó í útjaðri Genua á Ítalíu og kennir Íslendingum að bragðbæta hinn kunna ítalska rétt; Spaghetti-bolognese, með því að setja dass af 12 ára gömlu Chivas-viskí út í. Ekki er vitað til þess að svo mögnuð leyniuppskrift hafi fyrr borist yfir hafið upp á Ísland. Fyrir fólk sem hefur áhuga á því að sýna frumleika á börum borgarinnar þá greinir Trausti jafnframt frá velheppnaðri tilraun sinni af því að drekka 8-faldann Bailays í koníaksglasi. Þykir þetta afar framúrstefnulegt norðan heiða og hefur þetta leyst af hólmi drykkinn margfræga; "Crazy-Manhattann", sem inniheldur Absalout citron og Fanta lemon (sem varð þekkur á Halló Akureyri ´95). Þess er þó getið í Gestgjafanum að 8-faldur Baileys sé ekki fyrir hvaða fjárhag sem er því drykkurinn sé verðlagður á 4800 krónur.