laugardagur, október 27, 2007

Sérsveitin fagnar 25 ára afmæli

Eins og lýðnum mun vera ljóst fagnar sérsveit ríkislögreglustjóra nú aldarfjórðungsafmæli. Blásið verður til hátíðarhalda í Hvalfirði sunnudaginn 28. október þar sem almenningi gefst kostur á að kynnast þessum hetjum nánar sem sveitina skipa. Þyrluflugmaðurinn Jens Þór Sigurðsson mun ferja fólk frá höfuðstaðnum yfir í Hvalfjörðinn en Jens hefur vakið verðskuldaða athygli upp á síðkastið fyrir tilraunir sínar til þess að lenda á vatni. Þegar á svæðið verður komið býðst almenningi svo tækifæri á að reyna sig við okkar hraustustu menn. Hægt verður að fara í krók og sjómann við Gest Kolbein Pálmason og Ólafur Örvar Ólafsson mun taka gesti og gangandi í hryggspennu.

föstudagur, október 19, 2007

Gummi Björns krefst kaupréttarsamnings

"Af hverju fæ ég ekki kaupréttarsamning?" spurði Guðmundur Björnsson öskuillur og örvhentur þegar Sleikipinnavefurinn náði tali af honum vegna Reymálsins. "Kosningastjóri Björns Inga á að fá kaupréttarsamning en ekki ég. Þó er öllum ljóst að ég gerði miklu meira í þessu prófkjöri Björns Inga heldur en kosningastjórinn." Spurður um hvort hann þyrfti ekki að hafa einhver tengsl við Orkuveituna til að fá kauprétt, sagðist Guðmundur ekki vilja svara neinu um það, en vísaði í skipulagsreglur Framsóknarflokksins.

þriðjudagur, október 16, 2007

Raggi sendir Amazon formlegt erindi

Ragnar Ingvarsson, kvikmyndaáhugamaður, hefur sent Amazon.com vefversluninni, formlegt erindi þar sem hann kvartar yfir skorti á vöruúrvali. Ekki hefur Sleikipinnavefnum tekist að komast yfir efni bréfsins, en samkvæmt heimildum þá getur Ragnar ekki á heilum sér tekið yfir því að karatemyndin "Best of the best" skuli ekki vera til sölu á Amazon, en upphaflega komst Ragnar í tæri við myndina á videóleigunni Tröð í kringum 1990. Í erindinu segir Ragnar að ágætt sé að Amazon selji þokkalegar myndir eins og "Godfather" og "Goodfellas" en það skjóti skökku við að bjóða ekki upp á listræn þrekvirki eins og "Best of the best". Það sé í raun móðgun við iðnaðinn og þá ekki síst listamanninn Erik Roberts.

þriðjudagur, október 02, 2007

Tekur Hannes fram skóna?

Fjölnir úr Grafarvogi hefur nú unnið sér sæti í Landsbankadeildinni í knattspyrnu í fyrsta skipti. Einn ástsælasti knattspyrnumaður þessa unga félags er Hannes Már Sigurðsson sem lék með liðinu á tíunda áratuginum. Sparkspekingar hvarvetna spyrja sig nú hvort Hannes muni taka fram skóna á þessum tímamótum en lítið hefur farið fyrir honum á íþróttavellinum á undanförnum árum. Landsmótsgestum á Landsmóti UMFÍ árið 1994 mun þó líklega vera enn í fersku minni stórkostlegur endasprettur hans í 200 metra flugsundi. Hannes náði þar vitanlega afgerandi forskoti eftir 50 metra sund og fylgdi því kröftuglega eftir í mark. Þetta sund náðist á myndband og var því gaukað að sleikipinnavefnum á dögunum. Til að fyrirbyggja misskilning þá fór þetta sund fram á mesta ljósabaðatímabili Hannesar. Nálgast má myndbandið hér en sjón er sögu ríkari.