föstudagur, nóvember 05, 2010

„Skref niður á við“

Guðmundur í kjólnum fræga. Hann tekur sig ekki síður vel út en Björk á sínum tíma.

Frá fréttaritara VSP í Svíþjóð, Gylfa Ólafssyni
Guðmundur Gunnarsson, þokkatröll, hefur sem kunnugt er fengið nýtt starf sem
kynningapiltur á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Guðmundur segir starfið vera skref niður á við, en allt sé hey í harðindum.

„Já, eftir að ég var kynnir á þorrablóti Bolvíkingafélagsins var ég nú að
vonast eftir að fá betri gigg. Þar hélt ég að stökkpallurinn væri kominn
upp í alvöru frægð og frama,“ sagði Guðmundur dapur í bragði.
Hann segist þó ætla að gera það besta úr þessu öllu saman.

„Já, ég er búinn að hringja í Björk og ætla að fá svanakjólinn lánaðan.
Það er algengur misskilningur að bara konur megi vera í flottum fötum.
Ég ætla að reyna að láta þetta áfall ekki verða mér fjötur um fót heldur
nýta mér það til frekari frama. Einhvern tímann fæ ég kannski að komast
að í Zúúper, vera kynnir á þorrablóti Grunnvíkingafélagsins eða
vera með símaviðtöl í Reykjavík síðdegis. Maður má ekki gefast upp.“