fimmtudagur, febrúar 04, 2010

Guðmundur segir af sér vegna spillingar

Siðspilltir-Guðmundur (TV) og Kristján (TH) á Þorrablótinu. Greina má spillinguna í augum Guðmundar, en Kristján kýs að búa til alþjóðlegt merki spillingar með fingrum sínum. Sjaldan hefur eins mikil spilling náðst á mynd.



Guðmundur Gunnarsson, formaður Bolvíkingafélagsins, hefur sagt af sér formennsku félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Guðmundur sendi frá sér nú undir kvöld. Í henni viðurkennir Guðmundur að hafa orðið uppvís að spillingu.

"Ég viðurkenni að hafa orðið uppvís að spillingu. Sorrý," segir Guðmundur í tilkynningunni, fullur iðrunar.

Gustað hefur um Guðmund í embætti formanns allt frá embættistöku, en hann er sem kunnugt er sonur Gunnars Hallssonar, forstöðumanns Sundlaugar Bolungarvíkur, sem jafnframt sat lengi í meirihluta bæjarstjórnar Bolungarvíkur og einnig í stjórn Milestone. Er talið víst að Guðmundur hafi nýtt sér tengsl föður síns til þess að komast til formennsku, en Gunnar er annálaður fyrir margvísleg félagsstörf í gegnum tíðina, þar sem hann hefur komið sér upp viðamiklu tengslaneti, en slíkt net er eins og alvita er, grundvöllur hvers kyns spillingar.

Guðmundur játar í yfirlýsingu sinni að hafa misnotað almannafé, þegar hann, ásamt mýmörgum vinum sínum að sunnan, hafi notað aðstöðu Sundlaugar Bolungarvíkur, sem og íþróttahússins, utan hefðbundins opnunartíma. Þetta hafi gerst ítrekað um bæði páska og áramót.

Þá viðurkennir Guðmundur einnig að hafa gerst sekur um svokallaða "frændsemi" (nepotism), er hann veitti persónulegum vinum sínum ýmsar stöðuveitingar innan Bolvíkingafélagsins, á kostnað hæfara fólks. Nefnir hann dæmi um þegar Kristjáni Jónssyni, æskuvini sínum, var falið að ritstýra hinu árlegu tímariti Bolvíkingafélagsins í stað Reynis Traustasonar, sem hafði barist lengi fyrir því að komast að. Þess má geta að Kristján hefur unnið mörg trúnaðarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann sat einnig í stjórn Milestone.

Einnig fékk Guðmundur Kristján til þess að veislustýra sjálfu Þorrablóti félagsins í ár, sem er hápunktur skemmtanalífsins í Reykjavík. Í fyrra fékk Trausti Salvar Kristjánsson það sama hlutverk, sem einnig er nátengdur Guðmundi, en Trausti situr einnig í stjórn Milestone.

Mikill kurr hefur verið meðal fólks vegna þessa, þar sem horft hefur verið framhjá mörgu hæfu fólki í þessar stöður. Orri Örn Árnason, sem reyndar er vinur Guðmundar, mun hafa móðgast mjög yfir því að hafa ekki verið kosinn í stjórn, bara einhverja stjórn, td Bolvíkingafélagsins, Milestone, eða Þorrablótsnefndar, enda hafi hann yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af ritun fundargerða þrátt fyrir fötlun sína, en Orri hefur þjáðst lengi af þvoglumælgi og lesblindu.

"Fryst ahnn va aðessu á anað broð, akkuru gatan eggi redddað mé líga?" sagði Orri vonsvikinn.

Dropinn sem fyllti mælinn mun hafa verið í happadrætti Þorrablótsins, þar sem maki Guðmundar, foreldrar, mágur hans og vinur, unnu alla vinningana nema einn sem í boði voru, en meðal vinninga voru íburðarmiklar og troðfullar körfur af "gourmet" vörum á borð við Cheerios, Æði-bitum og hveiti frá Kötlu.

Í kjölfarið mun Pálína Vagnsdóttir, ókrýnd drottning hljóðnemanns og guðmóðir félagsstarfa á vestfjörðum, sem aldrei hefur mátt vamm sitt vita, hafa kallað Guðmund á neyðarfund, þar sem hún heimtaði afsögn hans.

"Og þar sem misgjörðir mínar höfðu ekki dulist neinum, gat ég ekki annað en orðið við óskum Pálínar og sagt af mér formennsku," segir Guðmundur í tilkynningunni.

Ljóst er að málið mun draga dilk á eftir sér, enda gegndi Guðmundur einnig stöðu fréttamanns RÚV samhliða formennskunni. Er ljóst að trúverðugleika fréttastofunnar hefur verið stefnt í voða vegna málsins, en hann var reyndar ekki mikill fyrir.


Við formennsku Bolvíkingafélagsins tekur Auður Gunnarsdóttir.