Innheimtuaðferðir Intrum yfirgengilegar?
Kristján Jónsson, lífskúnstner og skuldari, er meðal fyrstu íslendinga sem verða fyrir barðinu á nýstárlegum og mjög svo aðgangshörðum innheimtuaðferðum Intrum Justitia.
Hér birtast þrjú ítrekunarbréf sem Kristján hefur fengið send:
1. ítrekun
Ágæti skuldari
Vonandi veldur bréf þetta ekki of miklu ónæði en Intrum Justitia minnir á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Þér eruð eindregið hvattir til að gera hreint fyrir dyrum yðar áður en langt um líður.
Hafi skuldin ekki verið greidd innan tveggja vikna munum við leggja áherslu á alvarleika málsins með því að rita ókvæðisorð á afturrúðu bifreiðar yðar með rauðum áherslutúss
Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef reikningur hefur þegar verið greiddur
Virðingafyllst
Intrum Justitia
2. ítrekun
Ágæti lesblindi skuldari
Án þess að raska ró yðar um of þá minnir Intrum Justitia enn á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Vér mælumst sterklega til þess að þér greiðið skuldina hið snarasta eða ráðfærið yður við þjónustufulltrúa svo unnt sé að finna lausn á þessum leiða misskilningi
Hafi reikningurinn ekki verið greiddur innan tveggja daga munum við leggja enn ríkari áherslu á alvarleika málsins með því að rista upp á þér kviðinn með stjörnuskrúfjárni þangað til út falla iðrin. Því næst hella volgum linsuvökva yfir bifreið yðar og leggja eld að.
Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef svo ólíklega vill til að yður hafi hugkvæmst
að álpast út í banka
Virðingafyllst
Intrum Justitia
3. ítrekun
Virðulegi greindarskerti órangúti
Af rósemd minnir Intrum Justitia á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Yður er hér með ráðlagt að greiða skuldina eins fljótt og auðið er ellegar hnupla andvirðinu af nákomnum ættingja svo forðast megi frekari ítrekunaraðgerðir
Hafi greiðsla ekki borist innan tveggja mínútna munu tvær tylftir herskárra Hezbollah skæruliða ryðjast inn um baðstofugluggan og hefjast handa við að þröngva sjónvarpi inn um nasir yðar og méla á yður hnéliðina með hvítlaukspressu. Með þeim í för verða Tamíl-tígrarnir, Rauðu Khmerarnir, Svörtu Pardusarnir sem og Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars með nýtt fimm tíma prógram.
Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef reikningur hefur þegar verið greiddur en líkurnar á því eru hverfandi þar sem þér eruð drullusokkur
Virðingafyllst
Intrum Justitia, þín versta martröð
Slagorð Intrum er "Ekki gera ekki neitt, ellegar murkum við úr þér lífið með skrúflykli" og hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu.
Erlingur "Hnúajárn" Gíslason, formaður verkalýðsfélags handrukkara og dyravarða, hefur lagt fram formlega kvörtun til samkeppnisráðs. Hann segir Intrum ekki aðeins nýta sér ímynd handrukkara á þeirra kostnað, heldur fái handrukkarar á vegum Intrum lúsarlaun, sem væru ekki einu sinni samboðin litháum og pólverjum.
"Þeir nota líka AEG borvélar á hnén, þegar hvert mannsbarn veit að Black & Decker er málið," sagði Erlingur kíminn.
Að sögn Kristjáns hefur hann þegar greitt skuldina.