þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Innheimtuaðferðir Intrum yfirgengilegar?







Kristján Jónsson, lífskúnstner og skuldari, er meðal fyrstu íslendinga sem verða fyrir barðinu á nýstárlegum og mjög svo aðgangshörðum innheimtuaðferðum Intrum Justitia.

Hér birtast þrjú ítrekunarbréf sem Kristján hefur fengið send:


1. ítrekun

Ágæti skuldari

Vonandi veldur bréf þetta ekki of miklu ónæði en Intrum Justitia minnir á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Þér eruð eindregið hvattir til að gera hreint fyrir dyrum yðar áður en langt um líður.

Hafi skuldin ekki verið greidd innan tveggja vikna munum við leggja áherslu á alvarleika málsins með því að rita ókvæðisorð á afturrúðu bifreiðar yðar með rauðum áherslutúss

Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef reikningur hefur þegar verið greiddur

Virðingafyllst


Intrum Justitia


2. ítrekun

Ágæti lesblindi skuldari

Án þess að raska ró yðar um of þá minnir Intrum Justitia enn á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Vér mælumst sterklega til þess að þér greiðið skuldina hið snarasta eða ráðfærið yður við þjónustufulltrúa svo unnt sé að finna lausn á þessum leiða misskilningi

Hafi reikningurinn ekki verið greiddur innan tveggja daga munum við leggja enn ríkari áherslu á alvarleika málsins með því að rista upp á þér kviðinn með stjörnuskrúfjárni þangað til út falla iðrin. Því næst hella volgum linsuvökva yfir bifreið yðar og leggja eld að.

Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef svo ólíklega vill til að yður hafi hugkvæmst
að álpast út í banka

Virðingafyllst


Intrum Justitia


3. ítrekun

Virðulegi greindarskerti órangúti

Af rósemd minnir Intrum Justitia á skuld yðar að verðmæti 11.290 krónur við golfverslun Nevada Bob. Yður er hér með ráðlagt að greiða skuldina eins fljótt og auðið er ellegar hnupla andvirðinu af nákomnum ættingja svo forðast megi frekari ítrekunaraðgerðir

Hafi greiðsla ekki borist innan tveggja mínútna munu tvær tylftir herskárra Hezbollah skæruliða ryðjast inn um baðstofugluggan og hefjast handa við að þröngva sjónvarpi inn um nasir yðar og méla á yður hnéliðina með hvítlaukspressu. Með þeim í för verða Tamíl-tígrarnir, Rauðu Khmerarnir, Svörtu Pardusarnir sem og Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars með nýtt fimm tíma prógram.

Beðist er velvirðingar á þessari ítrekun ef reikningur hefur þegar verið greiddur en líkurnar á því eru hverfandi þar sem þér eruð drullusokkur

Virðingafyllst


Intrum Justitia, þín versta martröð


Slagorð Intrum er "Ekki gera ekki neitt, ellegar murkum við úr þér lífið með skrúflykli" og hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu.

Erlingur "Hnúajárn" Gíslason, formaður verkalýðsfélags handrukkara og dyravarða, hefur lagt fram formlega kvörtun til samkeppnisráðs. Hann segir Intrum ekki aðeins nýta sér ímynd handrukkara á þeirra kostnað, heldur fái handrukkarar á vegum Intrum lúsarlaun, sem væru ekki einu sinni samboðin litháum og pólverjum.

"Þeir nota líka AEG borvélar á hnén, þegar hvert mannsbarn veit að Black & Decker er málið," sagði Erlingur kíminn.

Að sögn Kristjáns hefur hann þegar greitt skuldina.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Kristinn H hlýtur nafnbótina Femínisti ársins

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður og kommúnistaliðhlaupi, hlaut í gær nafnbótina Femínisti ársins, á ársþingi kvenfélagsins Þuríði (sundafylli).

Nafnbótina hlaut Kristinn fyrir fádæma ósérhlífni, sanngirni og sjentilmennsku er hann dró framboð sitt til ritara Framsóknarflokksins tilbaka, svo að kvensniftin Sæunn Stefánsdóttir kæmist að.

Þó telja margir að um pólitíska lævísi hafi verið að ræða hjá Kristni enda ólíklegt að hann hafi hlotið kosningu hvort eð er, í ljósi kjörs á formanni og varaformanni, sem báðir eru karlar á áttræðisaldri.

Hinn 17 ára gamli Birkir Jón Jónsson, sem einnig bauð sig fram til ritara, er æfur út í kvenfélagið, því að eigin sögn átti hann hugmyndina að frádrættinum.

“Ég sko, talaði við kellinn, og hérna, þú veist, tékkaði á honum, og hérna, hann bara, ´ok´ og þá sagði ég bara, ´ok´ og þá bara var ´etta klárt dæmi sko, þú veist?”, sagði Birkir Jón í gær og var mikið niðri fyrir.

Kristinn hefur neitað ásökunum Birkis og segist ekki taka þátt í sandkassaleik með leikskólabörnum.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Lágu kylliflatir á Króknum



Liðssveit GBO

Enn og aftur urðu sérvaldir íþróttamenn Bolungarvíkurkaupstaðar heimabæ sínum til skammar og að þessu sinni í golfíþróttinni. Keppt var á Hlíðarendavelli á Sauðarkróki og féll lið GBO niður í 4. deild og etur því kappi við lið einsog Sólheima, Elliheimilið Grund og Félag daufblindra, að ári.

Að sögn Birgis Olgeirssonar liðsstjóra var það helst langa spilið, stutta spilið og púttin sem klikkuðu, en Birgir var þó ánægður með hreyfingu manna milli hola sem og skrásetningu skors.

“Strákarnir stóðu sig vel í þessum litlu atriðum sem skipta oft miklu máli, en öllu verr gekk með aðalatriðin, einsog sjálf höggin. Ég vil ekki gagnrýna neinn sérstaklega, en Kristján og Bjarni Pétur voru alveg hörmulega lélegir, “ sagði Birgir vonsvikinn.

Hinn nýráðni bæjarstjóri, Grímur Atlason, sagðist vera alveg hoppandi vitlaus og mjög reiður vegna árangurs GBO að þessu sinni og hét því að beita sér fyrir eflingu og uppbyggingu golfíþróttarinnar með kaupum á erlendum leikmönnum til liðsins. Einnig kvað Grímur munu beita liðsmönnum hörðum líkamlegum refsingum og háum fjársektum.

“Það þarf að horfa til samþættingar í þessum málum. Því hef ég afráðið að kaupa einungis erlenda leikmenn sem bæði spila golf og einnig knattspyrnu. Þannig sparast bæði tími og peningar,” sagði Grímur.

Ekki eru þó allir liðsmenn ánægðir með slíkt fyrirkomulag og að sögn Kristjáns Jónssonar, sem allajafna er kjölfesta liðsins, myndu erlendir leikmenn raska samhljómi liðsins og koma á ójafnvægi sem seint yrði lagað.

“Ég tek ekki á mál að einhverjir útlendingar sem tala ekki einu sinni íslensku reyni að vera fyndni gaurinn í liðinu, sem er alfarið mitt hlutverk. Hinir strákarnir hafa hlegið að mér í mörg ár, og það fær enginn hottintotti að taka það frá mér,” sagði Kristján í uppnámi við blaðamann VSP.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Óspektir um helgina










Grímur Atlason



Talið er að hátt í 26 manns hafi lagt leið sína til Bolungarvíkur um verslunarmannahelgina. Aldrei fyrr hefur slíkur fjöldi aðkomumanna safnast saman á einum stað á Vestfjörðum og er talið að gamalt met sem Líf & Fjör hátíðin á Tálknafirði setti 1989, hafi verið slegið.

Þó var engin sérstök útihátíð né fjölskylduskemmtun auglýst í bænum og vekur því þessi fjöldi aðkomumanna undrun. Að sögn lögreglu er þó talið að helsta aðdráttaraflið hafi verið nýráðinn bæjarstjóri Bolungavíkur, Grímur Atlason, en hann á marga fræga vini.

Töluvert var um ölvun og gistu ein hjón fangaklefa lögreglunar. Hjónin eru heimamenn.

Lítið var um ölvunarakstur, en Bensi Bjarna fékk þó að keyra heim af Kjallaranum gegn því að Hidda (frænka) bakaði kleinur handa Jónasi sýslumanni.

Töluvert var um fíkniefni en hinir sérþjálfaðu lögregluhundar frá Reykjavík, Skapti og Skafti, þefuðu uppi 2 grömm af englaryki, 3 Camel sígarettur , dollu af íslensku neftóbaki og 1 túbu af trélími. Skapti lést skömmu síðar vegna of stórs lyfjaskammts, en Skafti varð fyrir bíl Bensa Bjarna aðfaranótt sunnudagsins. Málið er í rannsókn.


Töluvert rusl var í bænum eftir helgina og sagðist ein kona á Skólastígnum hafa séð amk tvö Snickers bréf og fjórar bjórdósir á gangstéttinni. Maður í Hjallastræti sagðist hafa séð hund í lögreglubúning ganga örna sinna á bíldekkið sitt, sem var 17 tommu álfelga. Að sögn bæjarstarfsmanna hefur ekki þurft að sópa jafn mikið í bænum síðan Ómar Dagbjarts gegndi starfi kústameistara bæjarins.

Talsvert var um vöruskort í Einarsbúð, og kláraðist t.d. hundamaturinn, Dr. Pepper gosið, breska nautakjötið, lífrænt ræktuðu Kólumbísku kaffibaunirnar, aprikósu sósuliturinn frá Maggy, undni handakrikakrukkusvitinn frá Jóa Fel, og andremmuúðinn frá Bjarna Fel.

Engin umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt til lögreglu, nema 28 tilvik sem gerðust öll á óbundnu slitlagi.