þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Óspektir um helgina










Grímur Atlason



Talið er að hátt í 26 manns hafi lagt leið sína til Bolungarvíkur um verslunarmannahelgina. Aldrei fyrr hefur slíkur fjöldi aðkomumanna safnast saman á einum stað á Vestfjörðum og er talið að gamalt met sem Líf & Fjör hátíðin á Tálknafirði setti 1989, hafi verið slegið.

Þó var engin sérstök útihátíð né fjölskylduskemmtun auglýst í bænum og vekur því þessi fjöldi aðkomumanna undrun. Að sögn lögreglu er þó talið að helsta aðdráttaraflið hafi verið nýráðinn bæjarstjóri Bolungavíkur, Grímur Atlason, en hann á marga fræga vini.

Töluvert var um ölvun og gistu ein hjón fangaklefa lögreglunar. Hjónin eru heimamenn.

Lítið var um ölvunarakstur, en Bensi Bjarna fékk þó að keyra heim af Kjallaranum gegn því að Hidda (frænka) bakaði kleinur handa Jónasi sýslumanni.

Töluvert var um fíkniefni en hinir sérþjálfaðu lögregluhundar frá Reykjavík, Skapti og Skafti, þefuðu uppi 2 grömm af englaryki, 3 Camel sígarettur , dollu af íslensku neftóbaki og 1 túbu af trélími. Skapti lést skömmu síðar vegna of stórs lyfjaskammts, en Skafti varð fyrir bíl Bensa Bjarna aðfaranótt sunnudagsins. Málið er í rannsókn.


Töluvert rusl var í bænum eftir helgina og sagðist ein kona á Skólastígnum hafa séð amk tvö Snickers bréf og fjórar bjórdósir á gangstéttinni. Maður í Hjallastræti sagðist hafa séð hund í lögreglubúning ganga örna sinna á bíldekkið sitt, sem var 17 tommu álfelga. Að sögn bæjarstarfsmanna hefur ekki þurft að sópa jafn mikið í bænum síðan Ómar Dagbjarts gegndi starfi kústameistara bæjarins.

Talsvert var um vöruskort í Einarsbúð, og kláraðist t.d. hundamaturinn, Dr. Pepper gosið, breska nautakjötið, lífrænt ræktuðu Kólumbísku kaffibaunirnar, aprikósu sósuliturinn frá Maggy, undni handakrikakrukkusvitinn frá Jóa Fel, og andremmuúðinn frá Bjarna Fel.

Engin umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt til lögreglu, nema 28 tilvik sem gerðust öll á óbundnu slitlagi.