mánudagur, ágúst 14, 2006

Lágu kylliflatir á Króknum



Liðssveit GBO

Enn og aftur urðu sérvaldir íþróttamenn Bolungarvíkurkaupstaðar heimabæ sínum til skammar og að þessu sinni í golfíþróttinni. Keppt var á Hlíðarendavelli á Sauðarkróki og féll lið GBO niður í 4. deild og etur því kappi við lið einsog Sólheima, Elliheimilið Grund og Félag daufblindra, að ári.

Að sögn Birgis Olgeirssonar liðsstjóra var það helst langa spilið, stutta spilið og púttin sem klikkuðu, en Birgir var þó ánægður með hreyfingu manna milli hola sem og skrásetningu skors.

“Strákarnir stóðu sig vel í þessum litlu atriðum sem skipta oft miklu máli, en öllu verr gekk með aðalatriðin, einsog sjálf höggin. Ég vil ekki gagnrýna neinn sérstaklega, en Kristján og Bjarni Pétur voru alveg hörmulega lélegir, “ sagði Birgir vonsvikinn.

Hinn nýráðni bæjarstjóri, Grímur Atlason, sagðist vera alveg hoppandi vitlaus og mjög reiður vegna árangurs GBO að þessu sinni og hét því að beita sér fyrir eflingu og uppbyggingu golfíþróttarinnar með kaupum á erlendum leikmönnum til liðsins. Einnig kvað Grímur munu beita liðsmönnum hörðum líkamlegum refsingum og háum fjársektum.

“Það þarf að horfa til samþættingar í þessum málum. Því hef ég afráðið að kaupa einungis erlenda leikmenn sem bæði spila golf og einnig knattspyrnu. Þannig sparast bæði tími og peningar,” sagði Grímur.

Ekki eru þó allir liðsmenn ánægðir með slíkt fyrirkomulag og að sögn Kristjáns Jónssonar, sem allajafna er kjölfesta liðsins, myndu erlendir leikmenn raska samhljómi liðsins og koma á ójafnvægi sem seint yrði lagað.

“Ég tek ekki á mál að einhverjir útlendingar sem tala ekki einu sinni íslensku reyni að vera fyndni gaurinn í liðinu, sem er alfarið mitt hlutverk. Hinir strákarnir hafa hlegið að mér í mörg ár, og það fær enginn hottintotti að taka það frá mér,” sagði Kristján í uppnámi við blaðamann VSP.