fimmtudagur, júlí 24, 2008

Guðmundur taldi sig sjá hvítabjörn í Stokkhólmi

Guðmundur Gunnarsson, útvarpsmaður, komst í hann krappann í annað sinn á tæpri viku þegar hann var í fríi með sambýliskonu sinni í Stokkhólmi. Guðmundur lét kalla út sænska herinn þar sem hann taldi sig hafa séð hvítabjörn: "Þetta var ógurlegt hvítt flykki. Ábyggilega mörg tonn að þyngd," sagði Guðmundur í talsverðri geðshræringu í samtali við sænska blaðið Aftonbladet. Ekki reyndist þó þarna vera hvítabjörn á ferðinni heldur var um að ræða húsakynni IKEA verslunarkeðjunnar. "Þetta er stórsniðugt. Þeir selja húsgögnin á lægra verði og maður setur þau sjálfur saman í staðinn. Hreint ekki galið. Milla verslaði þarna viskíglös sem okkur vantar í innbúið og ég fékk mér kjötbollur á meðan," sagði Guðmundur léttur. Um liðna helgi fékk Guðmundur sér labbitúr norður á ströndum og lét þá kalla út víkingasveitina og varaliðið því hann taldi sig sjá hvítabjörn. Það reyndist þó ekki heldur vera hvítabjörn heldur fermingarbróðir hans, Sigurbjörn. "Langt síðan maður hefur séð strákinn" sagði Guðmundur kíminn í samtali við strandir.is.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Jón Steinar safnar börtum

Jón Steinar Guðmundsson (31), húsasmiður, hefur vakið athygli að undanförnu fyrir að skarta myndarlegum börtum í anda Ragnars Reykás. Spurður um þetta uppátæki sagðist Jón hafa á dögunum séð æsilega frétt í 24 stundum þar sem sagt var frá því að Haukur Hólm í KR-útvarpinu væri að safna börtum. "Svo er þetta líka hluti af stemningunni í kringum Bolungarvíkurmótið í Kana sem fram fer á næstunni." Til mikils er að vinna í mótinu en í verðlaun eru meðal annars ársbyrgðir af mjólkurkexi.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Kristján Jónsson að taka við sænska landsliðinu?

Athafnamaðurinn Kristján Jónsson er til skoðunar hjá sænska handknattleikssambandinu sem næsti landsliðsþjálfari svía. Þykir þetta mikil upphefð fyrir Kristján, sem hefur tiltölulega litla reynslu af þjálfun, en hann var um tíma liðsstjóri hjá UMFB í knattspyrnu og náði býsna góðum árangri með Roma, Ajax og Borussia Mönchengladbach í Championship Manager. Þá hefur hann einnig unnið trúnaðarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er nú þónokkuð.

Svenson Karlson Nilson, formaður sænska handknattleikssambandssins, segir Kristján mjög hæfan í starfið, enda hafi hann verið stuðningsmaður sænskra íþróttaliða frá örófi alda.
Þá telji drjúgt að Kristján hafi sótt um sænskan ríkisborgararétt, eftir að sænska liðið tapaði fyrir Íslandi, í leik þjóðanna um sæti á Ólympíuleikunum á dögunum, en það atvik fékk mjög á Kristján, sem lét hafa eftir sér að hann "myndi líklega aldrei ná sér að fullu eftir slíkan harmleik".

Sú staðreynd að sænska tóbaksfyrirtækið (munn) SKOL og vínframleiðandinn Absalut Vodka í Fanta Lemon skuli vera stærsti styrktaraðili sænska handknattleikssambandsins, þykir renna enn sterkari stoðum undir þá kenningu að Kristján sé að taka við sænska liðinu, sem er enn í sárum eftir leikinn við íslendinga.

Fyrrum stórskytta svía, "Faxe" Kondi, sagði í samtali við VSP, að hann teldi Kristján jafnvel koma til greina sem spilandi þjálfara. "Jo. Stjane har so mikket spilleskilning ok fantastiske stadsetninger ad han kan vel vera spillende trenere. So har han ogsa svakilegt teknik ok kan spinne bollen med fantastisker kraften i marken. Hej hej!" sagði "Faxi" á sínu ástkæra ylhýra.

Ekki náðist í Kristján við vinnslu fréttarinnar, en þegar haft var samband við föður Kristjáns, Jón Friðgeir, sagði hann: "Ég hef nú ekki heyrt af þessu, en þessi ráðning kæmi mér lítið á óvart, því þegar ég varð ræðismaður Finnlands á Íslandi, talaði hann ekki við mig í margar vikur á eftir. Hann muldraði eitthvað í bringuna á sér um, að finnar gætu andskotann ekkert í handbolta. Svo tók hann tuskuboltann sinn og dúndraði honum í finnska ræðismannsskjöldinn, sem Gunnar Halls var nýbúinn að setja upp hjá mér."

Talið er að Kristján muni fá mág sinn, Stig, sem er hershöfðingi í sænska hernum, til þess að verða aðstoðarþjálfari sinn. Það muni leysa ýmsa tungumálaörðugleika sem kunna að dúkka upp, en einnig fá aukinn aga í liðið. Þó er ekki víst að Stig geti fengið sig lausan, en hann er í fastri vinnu sem ökuþór í hinum geysivinsælu Top Gear þáttum.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Guðmundur tók gögn

Guðmundur Gunnarsson tók kassa með trúnaðarupplýsingum með sér þegar hann lét af störfum hjá sjónvarpinu. Hann neitar að afhenda gögnin. RÚV mun grípa til aðgerða skili Guðmundur ekki gögnunum í dag. Guðmundur sem var fréttamaður hjá sjónvarpinu, lét af störfum í júní og færði sig yfir í útvarpið. Guðmundi er jafnframt gert að skila grænni Toyota Corolla bifreið.

Samkvæmt heimildum Sleikipinnavefjarins er um að ræða tuttugu ára gamlar nektarmyndir af Elínu Hirst fréttastjóra. Elín vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en sagðist hafa verið ung og með takmörkuð fjárráð. Ekki sé óalgengt að sjónvarpsstjörnur hefji ferilinn með þessum hætti og þetta hefði verið ágætlega borgað. Hvað Guðmundur hyggst gera við myndirnar sagðist hún ekki geta gert sér það í hugarlund.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Birgir með hærri laun en Grímur

Samkvæmt frétt Bæjarins Besta eru laun Birgis Olgeirssonar, ferðmálafulltrúa í Bolungarvík, hærri en laun fráfarandi bæjarstjóra Gríms Atlasonar. Hefur þetta vakið nokkra athygli fjölmiðlamanna eins og gjarnan er með mál sem tengjast Grími. Umræddar upplýsingar hafi valdið hneykslan reyndra blaðamanna. Jakob Bjarnar fullyrðir í Fréttablaðinu, að þegar Grímur hafi sest að í Bolungarvík fyrir tveimur árum síðan, hafi þar engin hafnaraðstaða verið og gert hafi verið út á opnum bátum frá Ósvör. Íbúafjöldi hafi þá verið í kringum 100 manns og aldrei hefði heyrst talað um Þorrablót eða Markaðsdag áður en Grímur settist í bæjarstjórastólinn. Þessi Birgir haldi hins vegar að lífið snúist um rokk og ról. Pétur Gunnarsson bætir um betur á bloggsíðu sinni "Orðið á götunni" og heldur því fram að Grímur hafi einnig fundið upp internetið í hjáverkum en hafi aldrei tekið krónu fyrir. Á hinn bóginn kunni Birgir ekki einu sinni að fara á internetið og hafi auk þess týnt einni helstu skrautfjöður hljómsveitarinnar Nýrrar danskrar í hálfan sólarhring, eftir að þeir léku fyrir dansi á Markaðsdaginn.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Bjarni Pétur í bréfaskóla

Bjarni Pétur Jónsson, golfvallarhirðir, stundar nú kínverskunám af miklum móð í bréfaskóla. Samkvæmt heimildum Sleikipinnavefjarins hefur Bjarni sóst eftir því að sjá um fararstjórn hjá íslenskum Ólympíuförum þetta árið en leikarnir verða sem kunnugt er haldnir í Peking í Kína. Bjarni vildi hvorki játa þessu né neita þegar Sleikipinnavefurinn hafði samband við hann vegna málsins.