fimmtudagur, júlí 24, 2008

Guðmundur taldi sig sjá hvítabjörn í Stokkhólmi

Guðmundur Gunnarsson, útvarpsmaður, komst í hann krappann í annað sinn á tæpri viku þegar hann var í fríi með sambýliskonu sinni í Stokkhólmi. Guðmundur lét kalla út sænska herinn þar sem hann taldi sig hafa séð hvítabjörn: "Þetta var ógurlegt hvítt flykki. Ábyggilega mörg tonn að þyngd," sagði Guðmundur í talsverðri geðshræringu í samtali við sænska blaðið Aftonbladet. Ekki reyndist þó þarna vera hvítabjörn á ferðinni heldur var um að ræða húsakynni IKEA verslunarkeðjunnar. "Þetta er stórsniðugt. Þeir selja húsgögnin á lægra verði og maður setur þau sjálfur saman í staðinn. Hreint ekki galið. Milla verslaði þarna viskíglös sem okkur vantar í innbúið og ég fékk mér kjötbollur á meðan," sagði Guðmundur léttur. Um liðna helgi fékk Guðmundur sér labbitúr norður á ströndum og lét þá kalla út víkingasveitina og varaliðið því hann taldi sig sjá hvítabjörn. Það reyndist þó ekki heldur vera hvítabjörn heldur fermingarbróðir hans, Sigurbjörn. "Langt síðan maður hefur séð strákinn" sagði Guðmundur kíminn í samtali við strandir.is.