þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Megavika

Langar biðraðir eftir matvælum myndast nú víðsvegar á landinu. Hægt er að líkja ástandinu við kreppuna miklu þegar skömmtun matarmiða var allsráðandi. Hinsvegar er ekki um skort á mat að ræða í þessu tilviki, heldur skort á flatbökugerðarmönnum. Já, það er komin svokölluð Megavika Dominos, sem þýðir að öngþveiti, æðabunugangur og offors ræður ríkjum í þjóðfélaginu.

Bólugrafnir unglingspiltar með spangargleraugu og álkulegar táningsstúlkur með þvalt enni, keppast um að þjóna sísvöngum neytendum og hafa vart undan. Allar flatbökur lækka um helming í verði og kúnnahópurinn vex um ¾. Allir græða. Dominos fær fullt af peningum í kassann og frónarbúar fullnægja sístækkandi keppum sínum sem sífellt vilja meira og meira. Þegar komið er miklu meira en nóg og viðkomandi kemst ekki út í bíl til að sækja flatbökuna fyrir fitu, þá er kominn tími á maga-aðgerð og viðkomandi getur byrjað upp á nýtt. Hver sagði svo að lífið væri flókið?


Til umhugsunar:

Af hverju er Dominos ekki með Megaviku í hverri viku? Hafa þeir virkilega ekki fattað gróðavonina?