sunnudagur, nóvember 30, 2008

Benni Sig syndir til styrktar Stím

Bolvíski sundkappinn, Benedikt Sigurðsson, hefur ákveðið að synda yfir Ermasund, eins konar Ermasundssund. Benedikt mun safna áheitum og takist honum ætlunarverkið þá munu fjármunirnir renna óskiptir til fjárfestingafélagsins Stím, sem ekki mun hafa átt nægilega gott ár eftir því sem fregnir herma. Jakob Valgeir Flosason, stjórnarformaður, meðstjórnandi, ritari, gjaldkeri, talsmaður og einn eigenda félagsins, sagðist ekki vilja tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en óskaði eftir því að einkalíf hans og fjölskyldu njóti þeirrar friðhelgi sem almennt er talið eðlilegt. Gunnar Torfason, einn eigenda Stím, vildi ekki heldur tjá sig um málið en vildi koma því að framfæri að hann væri einhver allra liprasti knattspyrnumaður sem fram hefði komið á norðanverðum Vestfjörðum.

Rétt er að taka fram að til stóð að birta mynd með fréttinni en Sleikipinnavefurinn á bara ekki til mynd af Guðbjarti Flosasyni.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Undaneldi

Það eru víst lítið um tilviljanir í pólitík. Limruskáldið Trausti úr Vík fjölgaði sér í gær. Fáeinum klukkustundum eftir að tíðindin voru gerð opinber ákvað Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum að segja af sér þingmennsku. Guðni er sem kunnugt er mikill áhugamaður um kynbætur.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Jón Ásgeir gerir tilboð í Víkara.is

Samkvæmt öruggum heimildum Sleikipinnavefjarins hefur athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson gert tilboð um að kaupa vefinn Víkari.is. Baldur Smári Einarsson, eigandi Víkara, staðfesti í samtali við Sleikipinnavefinn að honum hefði borist tilboðið og því hefði verið snarlega hafnað: "Það er allt útlit fyrir að Víkari.is verði eini einkarekni fjölmiðillinn á landinu sem Jón Ásgeir á ekki hlut í," sagði Baldur í samtali við Sleikipinnavefinn. Samkvæmt heimildum vefjarins mun Sparisjóður Bolungarvíkur hafa ætlað að lána Jóni fyrir kaupunum en Baldur er einmitt aðalbókari Sparisjóðsins: "Ég bara skil ekki hvað samstarfsfólki mínu gekk til með þessu," sagði Baldur hvekktur.