föstudagur, desember 28, 2007

Jón Steinar gengur á rjúpnastofninn

Jón Steinar frá Dröngum hefur löngum verið annálaður veiðimaður. Eftir að hann gekk í heilagt hjónaband hefur hann þó snúið sér alfarið að skotveiði, þar á meðal rjúpnaveiði. Mun kappinn eiga það til að halda einn í veiðitúra út í guðsgræna, og lætur þar hugann reika frá kanaspilamennsku og matarkexáti hversdagsins. Ekki er ósennilegt að Jón geri þar nokkrar mullersæfingar, ásamt því að elta upp einhverja málleysingjana og murka úr þeim lífið, eins og Þór Magnússon orðaði það. Hittni Jóns mun vera farinn að ganga nokkuð á rjúpnastofninn og hefur hann ekki komið tómhentur úr veiðitúrum á þessu ári. Eins og sönnum jafnaðarmanni sæmir hefur Jón ekki setið einn að kræsingunum, heldur hafa ýmis kvikindi í matarkistu hans fengið nægju sínu, og rúmlega það. Mál manna, í Árnes- og Hólshreppi, er að aldrei nokkurn tíma hafi sést jafn feitar og pattaralegar mýs, og þær sem Jón frá Dröngum hefur alið af höfðingasskap að undanförnu.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Dóri Daða kærir brúnkukremsframleiðanda

Halldór Daðason keppti á dögunum á Íslandsmótinu í fitness með ágætum árangri rétt eins og undanfarin ár. Nú er hins vegar komið babb í bátinn hjá Dóra sem nær litnum ekki af sér þrátt fyrir að mótið hafi farið fram fyrir tæpum mánuði. Sem kunnugt er koma keppendur í íþróttinni fram í alls kyns ónáttúrulegum húðlitum sem eiga að mást af í fyllingu tímans. Samkvæmt heimildum Sleikpinnavefjarins hefur Dóri nú farið í mál við brúnkukremsframleiðandann Costa del Sol en lögfræðistofan Logos sækir málið fyrir hönd Halldórs. Ekki náðist í Dóra við vinnslu fréttarinnar en hjá Logos fengust þau svör að málið væri á viðkvæmu stigi. Umboðsaðili fyrir kremið á Íslandi er Vörutorg.

fimmtudagur, desember 06, 2007

Danni sannar sig hjá Glitni

Samkvæmt heimildum Sleikipinnavefjarins hefur ekki verið grænn dagur í Kauphöll Íslands síðan Hálfdán Gíslason viðskiptafræðingur var færður yfir í markaðsviðskipti hjá Glitni. Sleikipinnavefnum tókst að ná sambandi við Danna með því að hringja úr leyninúmeri og spurði hann hvernig á þessu stæði: "Þetta er hrein tilviljun og ekkert annað. En því er ekki að neita að þetta er farið að líta illa út. Ég hef ekki haft jafn miklar áhyggjur af efnahagsmálum frá því á menntaskólaárunum þegar Krílið hækkaði verðið á Sælunum."