þriðjudagur, september 25, 2007

Gummi gefur til baka

Afmælisbarn sunnudagsins, Guðmundur Gunnarsson, hefur ákveðið að miðla af reynslu sinni og þjálfar nú flugþjóna hjá Icelandair. Guðmundur sagðist í samtali við Sleikipinnavefinn vera orðinn sjónvarpsstjarna á RÚV og nú sé mál til komið að gefa til baka til samfélagsins. "Nú er maður kominn fast að fertugu og rétt að huga að þeim sem ekki eru jafn frægir og ég. Á sínum tíma starfaði ég sem flugþjónn hjá Atlanta og þess vegna hef ég tekið að mér að þjálfa unga menn í þessu starfi. Það hefur óneitanlega verið uppörvandi fyrir þá að heyra mína sögu, og ekki síður að með dugnaði og bjartsýni geti þeir komist á sjónvarpsskjáinn eins og ég," sagði Guðmundur og greina mátti tár á hvarmi.

þriðjudagur, september 18, 2007

Orri til liðs við íþróttafréttamenn

Orri Örn Árnason, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni og wannabe Víkari, hefur gengið til liðs við íþróttafréttamenn í baráttu þeirra gegn Knattspyrnusambandinu. Orri er aldeilis ekki óvanur slag sem þessum en hann var á hnit ferli sínum rekinn átta sinnum úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur. Samningstækni Orra er hins vegar rómuð eins og sést á því að honum skuli hafa verið hleypt sjö sinnum inn í TBR aftur. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, formanns samtaka íþróttafréttamanna, hefur Orri í farteski sínu ilmandi fín meðmæli frá Ellerti B. Schram fyrrum forseta ÍSÍ, og formanns aðdáendaklúbbs Ellerts B. Schrams. Í meðmælum sínum bendir Ellert á að Orri hafi fyrir löngu komið auga á að víða sé pottur brotinn í íþróttahreyfingunni. Þeir hafi marg sinnis fundað um það og Orri hafi ráð undir rifi hverju. Sjálfur segir Orri að það verði gaman að takast á við KSÍ þó svo að hann hafi ekki alltaf verið ýkja hrifinn af stétt íþróttafréttamanna: "Ja, það var til dæmis aldrei fjallað um það þegar ég komst í 2. umferð á Íslandsmótinu í badminton," sagði Orri í samtali við Sleikipinnavefinn. Hann sagði ennfremur að KSÍ myndi þurfa að draga í land með VIP aðstöðu sína nema ef starfsmönnum Vegagerðarinnar verði þar gert hátt undir höfði.

þriðjudagur, september 11, 2007

Raggi útilokaður frá Keiluhöllinni

Ragnari Ingvarssyni voru allar bjargir bannaðar þegar hann hugðist fara með syni sínum í Keilu á dögunum í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Ragnar fékk ekki afgreiðslu en eftir að hafa falast eftir svörum, kom í ljós að Ragnar er enn að taka út tuttugu ára straff í Keiluhöllinni, sem hann var settur í vegna atburðar sem átti sér stað snemma á tíunda áratuginum. Ragnar neitaði að tjá sig um málið þegar Sleikipinnavefurinn leitaði eftir því og sagði straffið á misskilningi byggt. Harald Pétursson var sjónvarvottur að atvikinu og lýsir hann atburðarrásinni þannig:

"Ég hef aldrei séð annað eins. Ég var að rúlla upp Ragga og Hagbarði í Keilu og þá fór Raggi að beita öllum brögðum til þess að vinna upp muninn. Í einu kastinu tók hann svo mikið tilhlaup að hann gat ekki stoppað sig og endaði út á miðri braut þar sem olían tók við og skúrraði honum eftir allri brautinni. Þetta var í eina skiptið sem hann fékk fellu og það var með líkamanum. Í næsta kasti á eftir þá sveiflaði hann kúlunni svo langt aftur fyrir sig að hún þeyttist á næsta borð. Allir nálægir voru í bráðri lífshættu á meðan á þessum tilburðum stóð. Ég hef aldrei sé annað eins og Hagbarður hætti í keilu eftir þetta. Þetta straff er fullkomlega skiljanlegt."