þriðjudagur, september 18, 2007

Orri til liðs við íþróttafréttamenn

Orri Örn Árnason, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni og wannabe Víkari, hefur gengið til liðs við íþróttafréttamenn í baráttu þeirra gegn Knattspyrnusambandinu. Orri er aldeilis ekki óvanur slag sem þessum en hann var á hnit ferli sínum rekinn átta sinnum úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur. Samningstækni Orra er hins vegar rómuð eins og sést á því að honum skuli hafa verið hleypt sjö sinnum inn í TBR aftur. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, formanns samtaka íþróttafréttamanna, hefur Orri í farteski sínu ilmandi fín meðmæli frá Ellerti B. Schram fyrrum forseta ÍSÍ, og formanns aðdáendaklúbbs Ellerts B. Schrams. Í meðmælum sínum bendir Ellert á að Orri hafi fyrir löngu komið auga á að víða sé pottur brotinn í íþróttahreyfingunni. Þeir hafi marg sinnis fundað um það og Orri hafi ráð undir rifi hverju. Sjálfur segir Orri að það verði gaman að takast á við KSÍ þó svo að hann hafi ekki alltaf verið ýkja hrifinn af stétt íþróttafréttamanna: "Ja, það var til dæmis aldrei fjallað um það þegar ég komst í 2. umferð á Íslandsmótinu í badminton," sagði Orri í samtali við Sleikipinnavefinn. Hann sagði ennfremur að KSÍ myndi þurfa að draga í land með VIP aðstöðu sína nema ef starfsmönnum Vegagerðarinnar verði þar gert hátt undir höfði.