þriðjudagur, mars 30, 2010

Orri Örn gengur til liðs við Jeff Who

Orri mundar gítarinn á góðri stundu yfir einum köldum. Ef vel er að gáð, má heyra hina frægu þvoglumælgi í þriðja erindi lagsins.



Rokkhljómsveitin Jeff Who, sem þekktust er fyrir smellinn Barfly, hefur ráðið Orra Örn Árnason, gítarleikara, til liðs við sig. Þetta kemur fram á vef The Rolling Stone í dag.


"Ég hitti þá á fylleríi og þeir höfðu bara svo gaman af mér að þeir réðu mig á staðnum eftir að ég söng la la la la la la la la kaflann í Barfly fumlaust, þrátt fyrir mikla ölvun," er haft eftir Orra.


Orri hefur sérhæft sig í að spila á gítar fyrir rétthenta, þrátt fyrir fötlun sína, en hann er örvhentur og hefur auk þess verið greindur með þvoglumælgi á háu stigi. Er hann þó talinn meðal þeirra allra snjöllustu í sínu fagi og því mikill liðsstyrkur fyrir bandið, sem talið er að muni reyna að troða upp á Rokkhátíð Alþýðunar, Aldrei fór ég suður, á Ísafirði um páskana, fyrir tilstuðlan Orra, sem á ættir sínar að rekja til Bolungarvíkur.


"Það liggur náttúrulega beinast við að fara vestur, þarna hefur maður alið manninn um árabil og það er fátt betra en að komast heim í heiða dalinn. (víkina; innsk. blms) Ég er líka að slá tvær flugur í einu höggi með því að fá strákana vestur, því þá fæ ég pottþétt far hjá þeim," segir Orri, sem er óökufær um þessar mundir, vegna meints brots gegn valdstjórninni. Hann segir þó allt slíkt tal vera ýkjur og samsæri hægri manna og vísar slíkum sögusögnum til föðurhúsanna.


"Ég var í fullum rétti. Þetta er bara einn stór misskilningur. Ég reiddist bara yfir því að lögreglumennirnir skildu ekki það sem ég var að segja. Ég hef sent bréf til trúnaðarvinar míns Ellerts B. Schram, sem hefur sagst ætla að kippa þessu í liðinn fyrir mig," sagði Orri að lokum.






föstudagur, mars 19, 2010

Gummi Bjöss hættur hjá Símanum


Bolvíkingurinn Guðmundur Halldór Björnsson hefur sagt upp störfum á markaðsdeild Símans þar sem hann hefur starfað um árabil. Samkvæmt heimildum Sleikipinnavefjarins mun Guðmundur hafa orðið undir innan markaðsdeildarinnar þegar unnið var að síðustu 3G herferð fyrirtækisins. Sérstaklega mun hafa farið fyrir brjóstið á Guðmundi auglýsing Símans þar sem nokkrir af þekktustu leikurum þjóðarinnar sátu yfir dýrindis þorrabakka og veigruðu sér við að gæða sér á kræsingunum. Guðmundur vildi ekki tjá sig um uppsögnina þegar blaðamaður VSP hafði samband við hann. Spurður um þessa tilteknu auglýsingu sagðist Guðmundur ekki hafa getað tekið þátt í að gera hana enda séu þetta ekki skilaboðin sem sannir Framsóknarmenn vilji senda þjóðinni. "Það er beinlínis sorglegt að fylgjast með framgöngu okkar fyrrum ágæta fyrirtækis. Þetta var einhverskonar húmorslaus 2007 útgáfa í anda útrásarvíkinga þar sem að gert er lítið úr hefðbundnum íslenskum þjóðlegum afurðum. Nokkrir karlmenn, í lopapeysum þó, eru látnir fúlsa við íslenskum þorramat eins og hvert annað ómeti sé að ræða," sagði Guðmundur alvarlegur í bragði í samtali við VSP. Ekki liggur fyrir hvað Guðmundur mun taka sér fyrir hendur en heimildarmönnum VSP ber saman um að hann og fjárfestirinn Stefán Andrésson Arnalds hafi sést stinga saman nefjum undanfarið.