Orri Örn gengur til liðs við Jeff Who
Orri mundar gítarinn á góðri stundu yfir einum köldum. Ef vel er að gáð, má heyra hina frægu þvoglumælgi í þriðja erindi lagsins.
Rokkhljómsveitin Jeff Who, sem þekktust er fyrir smellinn Barfly, hefur ráðið Orra Örn Árnason, gítarleikara, til liðs við sig. Þetta kemur fram á vef The Rolling Stone í dag.
"Ég hitti þá á fylleríi og þeir höfðu bara svo gaman af mér að þeir réðu mig á staðnum eftir að ég söng la la la la la la la la kaflann í Barfly fumlaust, þrátt fyrir mikla ölvun," er haft eftir Orra.
Orri hefur sérhæft sig í að spila á gítar fyrir rétthenta, þrátt fyrir fötlun sína, en hann er örvhentur og hefur auk þess verið greindur með þvoglumælgi á háu stigi. Er hann þó talinn meðal þeirra allra snjöllustu í sínu fagi og því mikill liðsstyrkur fyrir bandið, sem talið er að muni reyna að troða upp á Rokkhátíð Alþýðunar, Aldrei fór ég suður, á Ísafirði um páskana, fyrir tilstuðlan Orra, sem á ættir sínar að rekja til Bolungarvíkur.
"Það liggur náttúrulega beinast við að fara vestur, þarna hefur maður alið manninn um árabil og það er fátt betra en að komast heim í heiða dalinn. (víkina; innsk. blms) Ég er líka að slá tvær flugur í einu höggi með því að fá strákana vestur, því þá fæ ég pottþétt far hjá þeim," segir Orri, sem er óökufær um þessar mundir, vegna meints brots gegn valdstjórninni. Hann segir þó allt slíkt tal vera ýkjur og samsæri hægri manna og vísar slíkum sögusögnum til föðurhúsanna.
"Ég var í fullum rétti. Þetta er bara einn stór misskilningur. Ég reiddist bara yfir því að lögreglumennirnir skildu ekki það sem ég var að segja. Ég hef sent bréf til trúnaðarvinar míns Ellerts B. Schram, sem hefur sagst ætla að kippa þessu í liðinn fyrir mig," sagði Orri að lokum.