föstudagur, mars 19, 2010

Gummi Bjöss hættur hjá Símanum


Bolvíkingurinn Guðmundur Halldór Björnsson hefur sagt upp störfum á markaðsdeild Símans þar sem hann hefur starfað um árabil. Samkvæmt heimildum Sleikipinnavefjarins mun Guðmundur hafa orðið undir innan markaðsdeildarinnar þegar unnið var að síðustu 3G herferð fyrirtækisins. Sérstaklega mun hafa farið fyrir brjóstið á Guðmundi auglýsing Símans þar sem nokkrir af þekktustu leikurum þjóðarinnar sátu yfir dýrindis þorrabakka og veigruðu sér við að gæða sér á kræsingunum. Guðmundur vildi ekki tjá sig um uppsögnina þegar blaðamaður VSP hafði samband við hann. Spurður um þessa tilteknu auglýsingu sagðist Guðmundur ekki hafa getað tekið þátt í að gera hana enda séu þetta ekki skilaboðin sem sannir Framsóknarmenn vilji senda þjóðinni. "Það er beinlínis sorglegt að fylgjast með framgöngu okkar fyrrum ágæta fyrirtækis. Þetta var einhverskonar húmorslaus 2007 útgáfa í anda útrásarvíkinga þar sem að gert er lítið úr hefðbundnum íslenskum þjóðlegum afurðum. Nokkrir karlmenn, í lopapeysum þó, eru látnir fúlsa við íslenskum þorramat eins og hvert annað ómeti sé að ræða," sagði Guðmundur alvarlegur í bragði í samtali við VSP. Ekki liggur fyrir hvað Guðmundur mun taka sér fyrir hendur en heimildarmönnum VSP ber saman um að hann og fjárfestirinn Stefán Andrésson Arnalds hafi sést stinga saman nefjum undanfarið.