miðvikudagur, febrúar 23, 2011

Trausti vongóður


"Ég er nú bara að vonast til að frændi sjái um sína" segir Trausti Salvar Kristjánsson, fyrirmynd og tryggingasölumaður. "Hann hlýtur að geta reddað mér um einhverja vinnu."
Sem kunnugt er er Trausti einn umsækjenda um stöðu húsvarðar í félagsheimilinu í Bolungarvík. Trausti sér fram á ljúfa daga á kústinum. "Sigurjón digri er fyrirmyndin að einhverju leyti, þó ég sé nú ekki eins feitur og uppstökkur og hann."
Trausti býst ekki við miklum önnum í nýja djobbinu. "Ætli þetta sé ekki bara að tuða yfir dýrtíðinni, fara í kaffi niðrá höfn og skottast útí Húsasmiðju eftir stormjárnum. Eitt er þó tímafrekt. Það er að með nýbyggingunni við félagsheimilið var byggt yfir aðalslagsmálasvæðið. Það blóð og óþrifnaður sem fór í gagnstéttina og götuna þegar í brýnu skarst og skolaðist burt í næstu leysingum þarf húsvörðurinn nú að skrúbba upp. Það er þó kostur að nú þurfi slagsmálahundar ekki að vera í yfirhöfnum þegar þeir slást, það er svo erfitt að ná blóði úr 66°N úlpum og ullarfrökkum til dæmis. Maður þarf að líta á björtu hliðarnar." Formlegrar ákvörðunar ráðninganefndar er að vænta innan skamms.
Gylfi Ólafsson, tíðindamaður VSP í útlöndum, skrifar frá landi hinna flegnu stuttermabola.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Guðmundi ekki boðið í VIP teitið


Talið er að fatasmekkur Guðmundar sé helsta orsök þess að honum var ekki boðið í teitið, en Guðmundur þykir heldur hallur undir dreifbýlisstílinn.
Guðmundi Gunnarssyni, spænskumælandi skjástjörnu og bolvíkingi, er ekki boðið í umtalaðasta félagsviðburð ársins, VIP teiti Hildar Lífar og Lindu Ýrar á Re-Play um helgina.

Nafn hans er hvergi að finna á gestalistanum sem birtur hefur verið í fjölmiðlum og þykir það renna stoðum undir þann orðróm, að Guðmundur sé einfaldlega ekki nógu frægur ennþá, þrátt fyrir áberandi frammistöðu sem kynnir í undankeppni Eurovision.

"Auðvitað er ég sár og reiður, þetta er annað áfallið sem ríður yfir á skömmum tíma, því ég var ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins á Eddunni um síðustu helgi. En ég er bara bjartsýnn og trúi því að lukkan snúist mér í hag, því bráðum verð ég í ´Hver er maðurinn´ í Fréttablaðinu, og þá ætti þetta að vera komið held ég," sagði Guðmundur ábúðarfullur.

föstudagur, febrúar 18, 2011

Guðmundur ekki tilnefndur

Guðmundur var nokkuð í glasi er hann ræddi við blaðamann VSP


Guðmundur Gunnarsson, skjástjarna, hefur sent íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni harðort uppsagnarmótmælabréf, hvar hann furðar sig á því að hann sé ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins, en Guðmundur hefur verið afar áberandi á skjá allra landsmanna, bæði sem kynnir í undankeppni Eurovision og sem þulur í tveimur þáttum um fjármál. (Þar sem hann féll reyndar í skuggann af Trausta Salvari Kristjánssyni, sem stal senuni ásamt landnámshænsni).

"Þetta er bara ósanngjarnt. Almenningur gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikil vinna liggur að baki þessum árangri hjá mér. Almenna reglan er sú að á bakvið hverja mínútu í sjónvarpi liggur hálfsmánaðar vinna, þannig að þetta eru komin nokkur ár hjá mér sem fóru í þetta. Og hvað fæ ég í staðinn? Viðtal í Vikunni!" sagði Guðmundur hvumpinn.

Hyggst Guðmundur segja af sér sem sjónvarpspersónuleiki í mótmælaskyni, og einbeita sér að einkalífinu.