sunnudagur, nóvember 21, 2010

Orri Örn fyrstu kaup Guðjóns


Frá tvíliðaleik Borgarnesmótsins í badminton 2003

Knattspyrnumaðurinn Orri Örn Árnason hefur gengið til liðs við Bí/Bolungarvík frá badmintondeild KR, og er hann fyrstu kaup Guðjón Þórðarsonar, sem nýlega tók við stjórnartaumum Skástriksins, eins og liðið er gjarnan nefnt. Kaupverð er talið nema allt að 3500 krónum. Kaupin voru innsigluð með handabandi á stuðningsmannakvöldi liðsins á Players sl. fimmtudag, hvar Orri kom að máli við Guðjón, að fyrra bragði.

Orri Örn er 34 ára vinstri bakvörður og er þekktur fyrir hraða sinn, snerpu og óbilgirni. Hann gerði samning til tveggja vikna, eða fram að fyrsta píp-testi liðsins.

Víst er að fréttirnar munu hafa jákvæð áhrif á hópinn, enda Orri annálaður fyrir fagmennsku og gamansemi sína vestra.

laugardagur, nóvember 20, 2010

Halldór slökkti ekki ljósin


Á dögunum voru Vestfirðingar hvattir til að slökkva ljósin á föstudegi fyrr í þessum mánuði. Að sögn Guðjóns Þorsteinssonar upphafsmanns átaksins, er það gert til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar sem virðist miða að því að leggja niður byggð í fjórðungnum. Ekki virðast allir hafa verið ánægðir með framtakið og einn þeirra er Halldór Magnússon, yfirmaður rafmagns á Vestfjörðum, sem sendi VSP yfirlýsingu vegna uppátækisins frá hornskrifstofu sinni. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

"Ég hef aldrei á ævinni vitað neitt heimskulegra. Fólk á helst að hafa ljósin kveikt allan sólarhringinn. Svona aðgerðir geta verið mjög skaðlegar og ég vil biðja fólk um að hafa ekki rafmagn í flimtingum. Ég þarf að reka stórt heimili og Land Cruiser jeppa. Auk þess er ég með tvo tölvuskjái í Orkubúinu."

miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Eignaðist þúsundasta "vininn" á Facebook
Litli "vinurinn" er sagður tilheyra Kristjáni sjálfum, enda eru þeir sláandi líkir.


Mannvinurinn og þúsundþjalasmiðurinn Kristján Jónsson náði þeim merka áfanga á dögunum að eignast þúsundasta vininn á Facebook samskiptavefnum. Þykir þetta nokkuð eftirsóttur heiður, enda ávísun á vinsældir, aðdáun og frama innan samfélags manna.

Það sem skýtur þó skökku við í tilfelli Kristjáns, er að um helmingur "vina" hans á Facebook, eru í raun hlutir sem eru tengdir honum á einn eða annan hátt. Til að mynda er hvítur Intersport sokkur Kristjáns af hægri fæti, með sína eigin Facebook-síðu, sem og George Foreman samlokugrillið hans. Meira að segja Micru-bifreið Kristjáns er með eigin Facebook-síðu, og nýtur hún töluverðra vinsælda.

Getgátur eru uppi um að Kristján sjálfur standi að baki síðunum, til þess eins að hífa upp vinafjöldann á Facebook-síðu sinni. Sterkasta vísbendingin þess efnis er einfaldlega eðli þúsundasta "vinarins", sem er vafalaust sá nánasti í vinahópi Kristjáns, en einnig sá minnsti.

Sjá má Facebook-síðu þessa nýjasta með-lims hér.

þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Guðmundur ráðinn aðstoðarmaður Stefáns


Guðmundur er þekktur fyrir sínar frægu "pepp" ræður og mun eflaust reynast þeim Stefáni og Guðjóni vel í klefanum í sumar.Guðmundur Halldór Björnsson, meðhjálpari, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Stefáns Arnalds hjá Bí/Bolungarvík, sem var nýlega ráðinn aðstoðarmaður Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara liðsins.

Mun Guðmundur sjá um að "straumlínulaga þjónustustig Stefáns," og "marka heildarstefnu í grunn-fagaðstoðun," líkt og segir í tilkynningu.

"Á mannamáli þýðir þetta að ég muni koma til með að sjá um að vekja Stebba og keyra hann í vinnuna. Síðan mun ég sjá um að færa æfingarplön inn í Excel og svoleiðis, auk þess sem ég mun koma til með að stýra handboltaæfingum í upphitun, en það er nýlunda á Íslandi að láta fótboltamenn spila handbolta í upphitun, meðan blæti handboltamanna til að spila knattspyrnu í sinni upphitun á æfingum er alþekkt," sagði Guðmundur.

föstudagur, nóvember 05, 2010

Guðmundur er frægasti Bolvíkingurinn


Guðmundur er orðinn þekkt andlit á skjá bolvíkingaGuðmundur Gunnarsson, fjölmiðlamaður, hefur tekið við kyndlinum af Pálma Gestssyni, sem frægasti Bolvíkingurinn, samkvæmt árlegri mælingu Capacent. Árangurinn má helst rekja til þess, að Guðmundur verður næsti kynnir Söngvakeppni Sjónvarpsins, sem er undankeppni Eurovisionkeppninnar sívinsælu.

Guðmundur, sem hefur verið á Topp 20 listanum yfir frægustu Bolvíkingana undanfarin fimm ár, eða síðan hann hóf störf á RÚV, bætist í fríðan flokk Bolvíkinga sem trónað hafa á toppi listanns, á borð við Einar Guðfinnsson, Einar K. Guðfinnsson, Einar Benediktsson, Einar Jónatansson, Elías Jónatansson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigurð Pétursson, Trausta S. Kristjánsson, Birgi Olgeirsson, Kristján Jónsson, og Pálma Gestsson, að ógleymdum Vagnsystkinunum, sem einokuðu toppsætið um árabil.

"Þetta er mikill heiður fyrir mig, ekki síst í ljósi þess að ég hef statt og stöðugt ætlað mér að komast á þennan stað síðan ég hóf störf í fjölmiðlum. En að manni skuli vera fagnað líkt og þjóðhetju í hvert skipti sem ég kem vestur er ótrúleg upplifun. Ég fæ aldrei nóg af því að gefa krökkunum eiginhandaráritun eða tala við almúgann á götu úti. Vissulega er þetta mikið áreiti, ekki síst frá hinum staðbundnu fjölmiðlum, BB og Víkara.is, en ég geri mér þó grein fyrir því að þetta er gjaldið sem ég þarf að borga fyrir frægðina," sagði Guðmundur auðmjúkur í viðtali við blaðamann VSP.

„Skref niður á við“

Guðmundur í kjólnum fræga. Hann tekur sig ekki síður vel út en Björk á sínum tíma.

Frá fréttaritara VSP í Svíþjóð, Gylfa Ólafssyni
Guðmundur Gunnarsson, þokkatröll, hefur sem kunnugt er fengið nýtt starf sem
kynningapiltur á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Guðmundur segir starfið vera skref niður á við, en allt sé hey í harðindum.

„Já, eftir að ég var kynnir á þorrablóti Bolvíkingafélagsins var ég nú að
vonast eftir að fá betri gigg. Þar hélt ég að stökkpallurinn væri kominn
upp í alvöru frægð og frama,“ sagði Guðmundur dapur í bragði.
Hann segist þó ætla að gera það besta úr þessu öllu saman.

„Já, ég er búinn að hringja í Björk og ætla að fá svanakjólinn lánaðan.
Það er algengur misskilningur að bara konur megi vera í flottum fötum.
Ég ætla að reyna að láta þetta áfall ekki verða mér fjötur um fót heldur
nýta mér það til frekari frama. Einhvern tímann fæ ég kannski að komast
að í Zúúper, vera kynnir á þorrablóti Grunnvíkingafélagsins eða
vera með símaviðtöl í Reykjavík síðdegis. Maður má ekki gefast upp.“