föstudagur, október 08, 2010

Guðjón ráðinn þjálfari BÍ/Bolungarvíkur


Guðjón Kristinsson, torf og grjóthleðslumeistari frá Dröngum á Seljanesi, hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks BÍ/Bolungarvíkur sem leikur í 1. deild á næstu sparktíð. Guðjón sagðist í samtali við VSP vera spenntur fyrir verkefninu en öll fjölmiðlaumfjöllunin um ráðninguna hafi komið sér á óvart. "Ég átti ekki von á öllu þessu fjaðrafoki í kringum þetta enda er þetta nú einu sinni bara 1. deildarlið sem var í 3. deild fyrir örfáum árum síðan. Einnig er ég undrandi á því hversu útbreiddar sögur af meintri kvensemi minni virðast vera. Menn virðast vera afar uppteknir af því ef marka má spjallsíður, Fésbækur og hvað þetta heitir allt á hinu háæruverðuga interneti. Jón Steinar frændi minn sýndi mér þessar síður allar í tölvunni hjá sér en hann er einna tæknivæddastur okkar Selnesinga."

Samúel Samúelsson, stjórnarmaður hjá BÍ/Bolungarvíkur, var kampakátur með að fá Guðjón til starfa. "Við erum virkilega ánægðir með þessa ráðningu á Guðjóni og tel að við séum búnir að ganga frá ráðningu á færasta og reyndasta hleðslumeistara sem Ísland hefur alið af sér. Nú reikna ég með að stigin staflist upp ef svo má segja," sagði Samúel þegar VSP hafði samband við hann og bætti því við að Guðjón myndi koma með ákveðnar nýjungar inn í félagið.

"Hann mun til dæmis kveða rímur fyrir leiki til þess að koma leikmönnum í rétt hugarástand en Guðjón er þekktur fyrir kveðskap og rímnaflutning á mannamótum," sagði Samúel og sagði ráðningu Guðjóns ekki eins kostnaðarsama og margir virtust gefa sér. "Guðjón er einnig menntaður skrúðgarðyrkjumaður og hann mun því einnig starfa sem vallarstjóri. Í þessu felast töluverð samlegðaráhrif því þarna eru tvö störf sameinuð í eitt."