sunnudagur, október 12, 2008

Kalli Hallgríms gefur ekki kost á sér

Karl Hallgrímsson, fyrrverandi varamaður í 3. deildarliði UMFB í Bolungavík, miðvallarleikmaður í Reyni frá Hnífsdal, fyrrverandi fyrirliði í Seríu 5 liði Fire Höje Idrætsforening á Mið-Jótlandi og síðast leikmaður utandeildarliðsins Biskups sem leikur í Sunnlensku deildinni, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í landslið karla í knattspyrnu á þessu ári. Ástæðurnar segir Karl vera persónulegar og hyggst hann ekki gefa þær uppi. Yfirlýsing þessa efnis var send landsliðsnefnd KSÍ fyrr í þessari viku. Forystumenn KSÍ eru gríðarlega vonsviknir með þessa ákvörðun Karls en Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hafði lagt ríka áherslu á að fá Karl í leikina nú í október.

Kristján Jónsson, íþróttafréttaritari, sagði í samtali við Tilraunavefinn að honum kæmi þessi ákvörðun Karls ekki á óvart. Hann hefði ekki leikið knattspyrnu í rúm átta ár. Og þótt hann hefði leikið fáeina leiki í sunnlensku utandeildinni í hitteðfyrra og staðið sig þokkalega, þá hefði hann staðið inni í miðjuhringnum lungann úr leikjunum og hvorki haft þrek til að sækja né verjast með liðsfélögunum. „Kalli á ekki að vera í þessu liði. Ég skil ekkert í Ólafi að leggja þessa ofuráherslu á að fá hann í þessa leiki í haust. Maðurinn er akfeitur og hefur þar fyrir utan aldrei getað neitt í fótbolta. Hann hefði orðið að athlægi."

Karl er annar leikmaðurinn í þessari viku sem tilkynnir að hann gefi ekki kost á sér í landsliðið. Fyrr í vikunni tilkynnti annar varamaður, Höskuldur Eiríksson úr FH, að hann gæfi ekki kost á sér í þessa leiki. Á skrifstofu KSÍ hefur verið sett sólarhringsvakt við tölvu og faxtæki því búist er við að fleiri varamenn sendi tilkynningu um að þeir gefi ekki kost á sér í þessa leiki.

Frá þessu var greint á Tilraunavefnum svokallaða.