miðvikudagur, febrúar 23, 2011

Trausti vongóður


"Ég er nú bara að vonast til að frændi sjái um sína" segir Trausti Salvar Kristjánsson, fyrirmynd og tryggingasölumaður. "Hann hlýtur að geta reddað mér um einhverja vinnu."
Sem kunnugt er er Trausti einn umsækjenda um stöðu húsvarðar í félagsheimilinu í Bolungarvík. Trausti sér fram á ljúfa daga á kústinum. "Sigurjón digri er fyrirmyndin að einhverju leyti, þó ég sé nú ekki eins feitur og uppstökkur og hann."
Trausti býst ekki við miklum önnum í nýja djobbinu. "Ætli þetta sé ekki bara að tuða yfir dýrtíðinni, fara í kaffi niðrá höfn og skottast útí Húsasmiðju eftir stormjárnum. Eitt er þó tímafrekt. Það er að með nýbyggingunni við félagsheimilið var byggt yfir aðalslagsmálasvæðið. Það blóð og óþrifnaður sem fór í gagnstéttina og götuna þegar í brýnu skarst og skolaðist burt í næstu leysingum þarf húsvörðurinn nú að skrúbba upp. Það er þó kostur að nú þurfi slagsmálahundar ekki að vera í yfirhöfnum þegar þeir slást, það er svo erfitt að ná blóði úr 66°N úlpum og ullarfrökkum til dæmis. Maður þarf að líta á björtu hliðarnar." Formlegrar ákvörðunar ráðninganefndar er að vænta innan skamms.
Gylfi Ólafsson, tíðindamaður VSP í útlöndum, skrifar frá landi hinna flegnu stuttermabola.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Guðmundi ekki boðið í VIP teitið


Talið er að fatasmekkur Guðmundar sé helsta orsök þess að honum var ekki boðið í teitið, en Guðmundur þykir heldur hallur undir dreifbýlisstílinn.




Guðmundi Gunnarssyni, spænskumælandi skjástjörnu og bolvíkingi, er ekki boðið í umtalaðasta félagsviðburð ársins, VIP teiti Hildar Lífar og Lindu Ýrar á Re-Play um helgina.

Nafn hans er hvergi að finna á gestalistanum sem birtur hefur verið í fjölmiðlum og þykir það renna stoðum undir þann orðróm, að Guðmundur sé einfaldlega ekki nógu frægur ennþá, þrátt fyrir áberandi frammistöðu sem kynnir í undankeppni Eurovision.

"Auðvitað er ég sár og reiður, þetta er annað áfallið sem ríður yfir á skömmum tíma, því ég var ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins á Eddunni um síðustu helgi. En ég er bara bjartsýnn og trúi því að lukkan snúist mér í hag, því bráðum verð ég í ´Hver er maðurinn´ í Fréttablaðinu, og þá ætti þetta að vera komið held ég," sagði Guðmundur ábúðarfullur.

föstudagur, febrúar 18, 2011

Guðmundur ekki tilnefndur

Guðmundur var nokkuð í glasi er hann ræddi við blaðamann VSP


Guðmundur Gunnarsson, skjástjarna, hefur sent íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni harðort uppsagnarmótmælabréf, hvar hann furðar sig á því að hann sé ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins, en Guðmundur hefur verið afar áberandi á skjá allra landsmanna, bæði sem kynnir í undankeppni Eurovision og sem þulur í tveimur þáttum um fjármál. (Þar sem hann féll reyndar í skuggann af Trausta Salvari Kristjánssyni, sem stal senuni ásamt landnámshænsni).

"Þetta er bara ósanngjarnt. Almenningur gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikil vinna liggur að baki þessum árangri hjá mér. Almenna reglan er sú að á bakvið hverja mínútu í sjónvarpi liggur hálfsmánaðar vinna, þannig að þetta eru komin nokkur ár hjá mér sem fóru í þetta. Og hvað fæ ég í staðinn? Viðtal í Vikunni!" sagði Guðmundur hvumpinn.

Hyggst Guðmundur segja af sér sem sjónvarpspersónuleiki í mótmælaskyni, og einbeita sér að einkalífinu.

mánudagur, desember 20, 2010

Kristján hlýtur Ómarinn

Kristján vakti mikla athygli á EM kvenna í handbolta í Noregi og Danmörku á dögunum. Var hann kosinn vinsælasti íþróttafréttamaðurinn, og skipar sér á stall með ekki ómerkari kollegum en Adolfi Inga og Samúel Erni Erlingssonum, sem eru betur þekktir ytra sem grínbræður, eða brodrene sjov.

Frá fréttaritara VSP í Svíþjóð, Gylfa Ólafssyni.


Kristján Jónsson, íþróttafréttamaður og þúsundþjalasmiður, hefur hlotið hinn eftirsótta Ómar fyrir árið 2010. Ómarinn eru verðlaun sem Blaðamannafélag Íslands gefur árlega þeim fjölmiðlamanni sem gengur í flest hlutverk í starfi sínu en verðlaunin eru nefnd eftir Ómari Ragnarssyni sem er sá fyrsti, og reyndar eini, sem hefur hlotið þau frá árinu 1959.

Kristján Jónsson hefur á árinu tekið fjölmörg viðtöl fyrir margmiðilinn Emmbéedl, þar sem hann „heldur á myndavélinni eins og klettur, stýrir hljóðnemanum af natni, spyr áleitinna spurninga og klippir og vinnur herlegheitin svo fagmannlega að úr verður myndrænt konfekt, sannkallað augnakonfekt“ eins og dómnefnd komst að orði.

„Ég er hrærður,“ sagði Kristján í samtalið við VSP. „Þegar ég var patti langaði mig alltaf til að verða eins og Ómar, með þrjú armbandsúr að taka myndbönd og spyrja spurninga og ganga í öll hlutverk, og nú hefur draumurinn ræst,“ sagði Kristján sem þykir sérlega laginn með öll rafmagnstæki og tól.

Í verðlaun fær Kristján ógangfæra bifreið af gerðinni Suzuki Swift ´83 sem talin er í eigu Ómars Ragnarssonar, 3. seríu af Stiklum á VHS, svitastorkna Adidas íþróttatreyju áritaða af Reyni Pétri Ingvarssyni og 10 tíma ljósakort á sólbaðsstofunni Múlatti á Grensásvegi.

sunnudagur, nóvember 21, 2010

Orri Örn fyrstu kaup Guðjóns


















Frá tvíliðaleik Borgarnesmótsins í badminton 2003

Knattspyrnumaðurinn Orri Örn Árnason hefur gengið til liðs við Bí/Bolungarvík frá badmintondeild KR, og er hann fyrstu kaup Guðjón Þórðarsonar, sem nýlega tók við stjórnartaumum Skástriksins, eins og liðið er gjarnan nefnt. Kaupverð er talið nema allt að 3500 krónum. Kaupin voru innsigluð með handabandi á stuðningsmannakvöldi liðsins á Players sl. fimmtudag, hvar Orri kom að máli við Guðjón, að fyrra bragði.

Orri Örn er 34 ára vinstri bakvörður og er þekktur fyrir hraða sinn, snerpu og óbilgirni. Hann gerði samning til tveggja vikna, eða fram að fyrsta píp-testi liðsins.

Víst er að fréttirnar munu hafa jákvæð áhrif á hópinn, enda Orri annálaður fyrir fagmennsku og gamansemi sína vestra.

laugardagur, nóvember 20, 2010

Halldór slökkti ekki ljósin


Á dögunum voru Vestfirðingar hvattir til að slökkva ljósin á föstudegi fyrr í þessum mánuði. Að sögn Guðjóns Þorsteinssonar upphafsmanns átaksins, er það gert til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar sem virðist miða að því að leggja niður byggð í fjórðungnum. Ekki virðast allir hafa verið ánægðir með framtakið og einn þeirra er Halldór Magnússon, yfirmaður rafmagns á Vestfjörðum, sem sendi VSP yfirlýsingu vegna uppátækisins frá hornskrifstofu sinni. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

"Ég hef aldrei á ævinni vitað neitt heimskulegra. Fólk á helst að hafa ljósin kveikt allan sólarhringinn. Svona aðgerðir geta verið mjög skaðlegar og ég vil biðja fólk um að hafa ekki rafmagn í flimtingum. Ég þarf að reka stórt heimili og Land Cruiser jeppa. Auk þess er ég með tvo tölvuskjái í Orkubúinu."

miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Eignaðist þúsundasta "vininn" á Facebook
































Litli "vinurinn" er sagður tilheyra Kristjáni sjálfum, enda eru þeir sláandi líkir.


Mannvinurinn og þúsundþjalasmiðurinn Kristján Jónsson náði þeim merka áfanga á dögunum að eignast þúsundasta vininn á Facebook samskiptavefnum. Þykir þetta nokkuð eftirsóttur heiður, enda ávísun á vinsældir, aðdáun og frama innan samfélags manna.

Það sem skýtur þó skökku við í tilfelli Kristjáns, er að um helmingur "vina" hans á Facebook, eru í raun hlutir sem eru tengdir honum á einn eða annan hátt. Til að mynda er hvítur Intersport sokkur Kristjáns af hægri fæti, með sína eigin Facebook-síðu, sem og George Foreman samlokugrillið hans. Meira að segja Micru-bifreið Kristjáns er með eigin Facebook-síðu, og nýtur hún töluverðra vinsælda.

Getgátur eru uppi um að Kristján sjálfur standi að baki síðunum, til þess eins að hífa upp vinafjöldann á Facebook-síðu sinni. Sterkasta vísbendingin þess efnis er einfaldlega eðli þúsundasta "vinarins", sem er vafalaust sá nánasti í vinahópi Kristjáns, en einnig sá minnsti.

Sjá má Facebook-síðu þessa nýjasta með-lims hér.