föstudagur, janúar 22, 2010

Una Guðrún gerir upp árin í Freestyle


Vestfirska forlagið gaf út fjölmargar bækur fyrir síðustu jól eins og endranær. Ein þeirra bóka sem ekki fór mikið fyrir í jólabókaflóðinu var bókin: "Árin í Freestyle" eftir Unu Guðrúnu Einarsdóttur og var gefin út af Vestfirska forlaginu. Í bókinni gerir Una upp árin í Freestyle danskeppni Tónabæjar á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Una myndaði þá frægt danstríó í Grunnskóla Bolungarvíkur ásamt Ernu Jónsdóttur og Maríu Friðgerði Bjarnadóttur. Voru þær afar sigursælar í undankeppnum vestur á fjörðum árum saman en tókst þó aldrei að sigra í lokakeppninni í Tónabæ þrátt fyrir nokkrar heiðarlegar tilraunir.

"Við vorum kannski full framúrstefnulegar í búningavali sem dæmi. Eitt árið mættum við í sjógalla að hluta en það vissi bara enginn í Tónabæ hvað þetta var. Við vorum náttúrlega upplýstar ungar konur og vildum vera í tengslum við lífæðina í plássinu en skilaboðin náðu bara ekki í gegn fyrir sunnan. Annars hefðum við pottþétt unnið enda fundum við upp mörg spor sem síðar hafa orð fræg eins og til dæmis tvöfalda hliðarsporið," segir Una í bókinni. Hún segir velgengnina í Freestyle ekki hafa breytt sér þó freistingar sé að finna á hverju strái í hinu ljúfa lífi Tónabæjar. Una hvetur ungt fólk til þess að taka þátt í keppninni en gæta sín á að vera ekki með sjávarútvegsþema í búningavali. Þess má til gamans geta að Una mun árita bókina á Þorrablóti Bolvíkingafélagsins í Reykjavík á næstu helgi.

Myndatexti: Á myndinni eru Una, Erna og María á gullaldarárum sínum í Freestyle ásamt Rúnari Vífilssyni, þáverandi skólastjóra í Bolungarvík.