föstudagur, október 30, 2009

Metrósexúal-menn fá uppreisn æru

Trausti í góðum félagsskap klukkan 2:45. Sérlega eftirtekt vekur, að skjannahvítar tennur hans eru í algerum stíl við hvítan bolinn.


Trausti Salvar Kristjánsson, formaður Metrósexúalfélags Íslands, hefur lýst yfir ánægju sinni með þá ákvörðun Lystar Ehf um að hætta reksti McDonalds á Íslandi, og taka í stað þess upp nafnið Metro á veitingarstöðum sínum, eins og komið hefur fram í fréttum.
Trausti segir það löngu tímabært að svokallaðir metró-menn njóti sömu mannréttinda og aðrir í þjóðfélaginu.

„Árum saman höfum við mátt þola hverskyns kúgun og fordóma í okkar garð. Við erum uppnefndir á götum úti og fólk glápir á okkur með vanþóknunarsvip, líkt og við séum útrásarvíkingar, femínistar, eða eitthvað þaðan af verra. Þá er gert grín að okkur fyrir að nota rakakrem og klæðast aðskornum fötum í stíl. Enn höfum við ekki fengið okkar eigin klefa í sundlaugum þessa lands, og enn þykir það feimnismál að kaupa sér „Do it yourself“ pungaháravax í apóteki. En nú hefur orðið bylting í réttindarbaráttu okkar með opnun þriggja nýrra staða, þar sem aðeins metrómenn fá afgreiðslu. Aldrei aftur þurfum við að horfa upp á akfeita, sveitta, ósamstæða og illa klædda menn borða á sama stað og við,“ sagði Trausti í óaðfinnanlegum GK-jakkafötum sínum við blaðamann VSP í gær.


Trausti segir baráttunni þó hvergi nærri lokið hjá samtökunum. Hann segir brýna þörf á að fá Egils Kristal í alla krana landsins, ljósabekki á öll heimili, og að verð á rakakremum verði niðurgreitt af sveitarfélögunum.


Segir Trausti góðar líkur á að kröfum sínum verði framfylgt, nú þegar Árni Páll Árnason, fulltrúi samtakanna í ríkisstjórn, sé orðinn félags- og tryggingamálaráðherra.