miðvikudagur, september 30, 2009

Vill opinskáa umræðu um kantskurð karlmanna

Gjörningaskáldið Trausti Zalvar hefur skorið upp herör gegn því sem, að hans sögn, er ein alvarlegasta sálarklemma nútímamannsins. Hann segist ekki geta setið aðgerðalaus lengur, vitandi hve margir karlmenn trassi það að raka sig að neðan.







Frumkvöðull Shaving Iceland bauð blaðamönnum upp á öl í tilefni dagsins


“Það er orðið tímabært að opna lýðræðislega umræðu um þetta." Sagði Trausti að loknum fjölmennum blaðamannafundi á Kringlukránni. “Það er hreint og beint sláandi hve margir kynbræður mínir vanrækja sínar sjálfsögðu rakstursskyldur. Ég hef því ákveðið að blása til sérstakrar herferðar. Hana kalla ég einfaldlega SHAVING ICELAND. Nú ákalla ég þrifalega þjóð og bið hana að berjast með mér.” Trausti segist hafa talað fyrir daufum eyrum kynbræðra sinna um árabil. Þeir neiti að horfast í augu við staðreyndir. “Ég hef margoft reynt að ræða þetta við samferðamenn mína, til dæmis í almenningssturtum og búningsherbergjum. Þetta er bara svo mikið feimnismál að jafnvel hörðustu naglar fara allir í kerfi og forðast að ræða þetta.” Segir Trausti og hallar sér fram á borðið.

“Eitt sinn króaði ég kirkjusmiðinn, Jón Steinar Guðmundsson, af í sturtunni í sundlaug Bolungarvíkur. Ég spurði hann af hverju í ósköpunum hann hirti ekki betur um sig neðanverðan. Hann varð hinn vandræðalegasti og strunsaði á braut. Þá bauð ég honum aðstoð við fyrsta raksturinn, enda er kunnáttuleysi oft helsta hindrunin. Hann kunni mér nú ekki miklar þakkir blessaður. Þusaði eitthvað um byssuleyfið sitt og sársaukafulla ristilspeglun sem hann væri tilbúin til þess framkvæma á mér ef ég reyndi að nálgast náran á honum. Þetta sýnir bara hvað menn geta verið viðkvæmir fyrir þessu. En ég veit nú líka sem er, að það er dropinn sem holar steininn í þessu”

Trausti segir margt á döfinni hjá nýstofnuðum samtökum SHAVING ICELAND. Samnefnt veggspjald herferðarinnar verður til að mynda hengt upp í öllum betri verslunum en það skartar andlitum þekktra íslendinga. “Þarna eru menn eins og Jóhannes í Bónus, Arnar Grant, Pétur Magg og Atli Eðvalds, að ógleymdum félagsmálaráðherranum okkar.” Segir Trausti. “Þetta er kjarninn í félagsskap sem kallar sig Kantskurðsherinn. Menn sem eru stoltir af sínum snjáðu snáðum og vilja hvetja kynbræður sína til dáða og ljá góðum málstað lið.”

Undir myndunum gefur svo að líta slagorð herferðarinnar “Upp með sköfuna! burt með brúskinn!”