sunnudagur, september 27, 2009

Polanski framseldur til Íslands?

Árni Svavarsson, teppahreinsir, kvikmyndaáhugamaður, og nýkjörinn formaður RJF-samtakanna, sem tóku upp málstað Keiko, Arons Pálma og Bobby Fischers á sínum tíma, berst nú harðlega fyrir því, að pólski leikstjórinn Roman Polanski fái athvarf hér á landi, en leikstjórinn góðkunni var handtekinn af lögreglu í Sviss á dögunum.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið gaf út handtökuskipun á hendur Polanski árið 1978 fyrir að beita 13 ára stúlku kynferðislegu ofbeldi og að sögn embættismanna í Sviss, stendur til að framselja Polanski til Bandaríkjanna.


"Ja sko, ef þeir vilja selja, þá erum við til í að kaupa hann. Þetta er bara spurning að bjóða betur en bandaríkjamennirnir. Enda höfum við miklu meiri not fyrir Polanski en þeir. Að fá svo virtan leikstjóra hingað til lands yrði frábært tækifæri fyrir íslenska kvikmyndagerð. Þá er ég handviss um að Polanski vilji frekar koma hingað, enda eru kynferðisglæpir ekki teknir sérstaklega alvarlega af dómstólum hér á landi. Má því segja að við séum að slá tvær flugur í einu höggi," sagði Árni.

Polanski hefur leikstýrt fjölda frægra kvikmynda, á borð við Rosemary´s Baby, Chinatown, og The Pianist, sem hann fékk Óskarinn fyrir árið 2002.
Ekki náðist í Polanski við vinnslu fréttarinnar.