föstudagur, október 02, 2009

Sagði ekki skoðun sína

Gylfi var valinn "Dúllubossarasskat ársins 2005", meðan hann starfaði sem fyrirsæta á Akureyri.




Gylfi Ólafsson, verðandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Svíþjóðar, sagði ekki skoðun sína á Icesave-málinu í kokteilboði sem haldið var í heimahúsi í Stokkhólmi í gær, hvar Gylfi var gestur ásamt maka sínum. Er málið litið alvarlegum augum af Frjálshyggjufélaginu, hvar Gylfi er meðlimur.


Er þetta talið í fyrsta skipti sem Gylfi tekur ekki þátt í umræðum um þjóðmál, dægurmál, eða önnur mál í slíkum selskap, en Gylfi þykir allajafna blóðheitur og öfgasinnaður hægrimaður.


Í kokteilboðinu beindist umræðan að Icesave-málinu og ábyrgð íslendinga á því. Vék Gylfi sér þá undan í flæmingi, og breytti um umræðuefni við blásaklausan Norðmann, sem rétt áður hafði þurft að ná sér í meiri bjór. Hófu þeir tal um enska boltann, hvar Gylfi hélt sér merkilega lengi inn í umræðunni, áður en hann gafst upp og byrjaði að dansa tangó, vel við skál.


Þessi breytta atferlishegðun Gylfa er ættingjum og vinum Gylfa áhyggjuefni, því bara í síðustu viku tók hann upp á því að klæðast hvorki vesti né skyrtupeysu, og þónokkuð er síðan hann bar þverslaufu síðast. Þá hefur Gylfi ekki sést í tíglamunstri síðan í mars, og áhyggjur ástvina Gylfa því skiljanlegar.