laugardagur, september 12, 2009

Glæsimenni í hár saman



Samfylkingarkrúttið Dagur Bjé Eggertz og gjörningaskáldið Trausti Zalvar hafa hafið makaðssetningu á nýrri hárvörulínu fyrir karlmenn. Fyrstu túpurnar af GLANZ geli eru væntanlegar í verslanir á næstu dögum.

Þessir kunnu tákngervingar kynþokkans segja að samstarfið hafi eiginlega hafist fyrir tilviljun. “Við unnum saman á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í fyrra” útskýrir Dagur. “Trausti kom að máli við mig á kaffistofunni og spurði hvaða gel ég notaði. Ég sagðist blanda mitt gel sjálfur og þá kom í ljós að við höfðum báðir átt erfitt með að finna gel sem fer vel með brjálæðislega heilbrigt hár." Trausti segist lengi hafa haft áhuga á nýstárlegri vöruþróun ”Ég hafði til dæmis prófað mig áfram með matarolíu og lakk en ekki alveg dottið niður á réttu blönduna fyrir hárið”. Hann segir þá Dag eiginlega hafa fallist í faðma á staðnum. “Þetta var eins og trúarleg upplifun. Það er svo sjaldgæft að finna svona hreinan samhljóm með annarri sál. Við höfðum auðvitað tekið eftir hári hvors annars en þetta var einhvernveginn svo rétt”. “Áður en við vissum af vorum við farnir að loka okkur inni á baðherberginu heima, með handklæði á öxlunum, að prófa okkur áfram með hráefni. Við sváfum ekki í marga mánði” segir Dagur og glottir til samstarfsfélagans.

Þeir GLANZ félagar segja það ekkert leyndarmál að höfuðkeppinautar GLANZ verði silfurstrákarnir Logi Geirsson og Björgvin Gústafsson. En gelið þeirra, Zilver, kom á markað fyrir fáeinum vikum. Trausti segist ekki óttast þá samkeppni. “Við vitum að okkar vara er betri. Ég meina, hvort myndir þú kaupa gel af okkur Degi eða þessum treggáfuðu handboltastrákum sem eru að reyna að fá fólk til þess að setja handboltaklístur í hárið á sér? Ég meina, horfðu bara á okkur! Við vitum hvað við erum að tala um.” Þeir félagar segjast frekar horfa til þess hvernig annað karlkyns tvíeyki stóð að sinni markaðssetningu. “Sterasúkkulaðið sem Arnar Grant og.....þarna....blindi útvarpsmaðurinn gerðu, það var sjúklega kúl. Við erum meira á þeirri línu.”