þriðjudagur, maí 23, 2006

Fyrsti tölvugerði frambjóðandinn staðreynd









Hinn upprunalegi Björn Ingi klæddist gjarnan leðurjakka










Hér sést eftirmyndin, mun huggulegri maður hér á ferð, í engum leðurjakka


Hinn ofsóknaóði frambjóðandi Framsóknarflokksins, Björn Ingi Hrafnsson, er í raun ekki sá sem hann segist vera.

Komið hefur í ljós að í öll þau skipti sem honum hefur brugðið fyrir í fjölmiðlum síðan snemma í mars, hefur verið um tölvuteiknaða eftirmynd hans að ræða.

Þetta staðfestir bastarður flokksins, Kristinn H. Gunnarsson.

Að sögn Kristins hefur Björn haldið sig að mestu heimafyrir meðan kosningalætin hafa magnast, og látið tæknimenn Framsóknarflokksins (þversögn?) um að koma hinni tölvugerðu eftirmynd á framfæri.

"Við erum búnir að sneiða síðuspikið af honum, taka af honum gleraugun, dæla í hann Tan-kremi, og hvíta í honum tennurnar. Umtalsverðasta breytingin var þó sú að við þurftum að láta hann fá algerlega nýjar skoðanir, eitthvað sem fólk myndi trúa," sagði Guðmundur Björnson, sem stýrir kosningabaráttu Framsóknar á bakvið tjöldin.

Að sögn Guðmundar virðist áhættan hafa borgað sig því Framsóknarflokkurinn mælist með mun meira fylgi heldur en þeir þorðu að vona með hinn raunverulega Björn Inga í fararbroddi.