föstudagur, mars 31, 2006

Örvhentur atvinnutvífari græddi milljónir á fasteignabraski!




















Hér sést Orri í gervi Brodda Kristjánssonar
(takið eftir nálægðinni við eyra stúlkunnar)

Orri Örn Árnason, atvinnutvífari þeirra Brodda Kristjánssonar og Roberts Prosineskís, varð í dag fyrsti örvhenti einstaklingurinn til þess að græða á fasteignaviðskiptum.

Þykir þetta nokkuð merkilegt afrek í ljósi þess að öll pappírsvinna fasteignaviðskipta er ætluð rétthentum.

"Þetta gekk í raun eins og í sögu. Að vísu þótti gjaldkera bæjarinns óþægilegt að hafa bein samskipti við mig en þar sem ég er örvhentur mátti í raun búast við því fyrirfram," sagði Orri og brosti út í vinstra munnvikið.

Einnig þykja viðskiptin athygliverð í ljósi ástands eignarinnar sem Orri náði að selja með 100% álagningu, en hún er í daglegu tali nefnd Hjallurinn, sem gefur raunsæja mynd af ásigkomulagi fasteignarinnar.

"Ég var auðvitað búinn að gera heilmikið fyrir húsið hvað sem hver segir. Ég skipti algerlega um allar ljósaperur í fyrrasumar og síðan smurði ég hjarirnar á útidyrahurðinni. Einnig þreif ég klósettið og fékk mér Stöð 2, þannig að endursöluverðið þaut átómatískt upp auðvitað."

Orri sagðist að lokum hæstánægður með söluna því nú gæti hann borgað upp gamlar pókerskuldir, sem skipta hundruðum þúsunda.