miðvikudagur, mars 02, 2005

Leikfélag Akureyrar setur upp Rocky Horror

Leikfélag Akureyrar mun setja upp söngleikinn Rocky Horror á næsta leiktímabili. Athygli vekur að lítt reyndur áhugaleikari Trausti Salvar Kristjánsson hefur þegar verið fenginn til þess að leika aðalhlutverkið í sýningunni. Leikhússtjórinn Magnús Geir Þórðarson sagðist í samtali við vefrit VSP hafa fengið ábendingu um frammistöðu Trausta í þessu sama hlutverki í uppfærslu vegna Árshátíðar Grunnskóla Bolungarvíkur árið 1993. Í framhaldinu hefði hann orðið sér úti um upptöku af sýningunni og hrifist mjög af pervertískum tilburðum Trausta. "Þó er einn listrænn ágreiningur kominn upp sem þarf að útkljá. Trausti neitar að vera í sokkabuxum í okkar uppfærslu en hann telur nauðsynlegt að fagurbrúnir fótleggir sínir fái að njóta sín þar sem hann sé nýlega búinn að festa kaup á nýju brúnkukremi og raki auk þess fótleggi sína að staðaldri. Þessu er ég hins vegar ósammála vegna þess að Trausti er með rauða rós tattóveraða á fótlegg sinn og gætu sokkabuxurnar komið í veg fyrir að tattóið sjáist," sagði Magnús.