mánudagur, febrúar 28, 2005

Kristján í samstarf við Ace of Base

Hinn fjölhæfi og hæfileikaríki lífskúnstner, Kristján Jónsson, hefur nú í samvinnu við Lasse Kjellström, formann aðdáendaklúbbs sænsku ofurgrúppunnar Ace of Base, sett nýtt trend í hártískunni.

Kristján, sem nú skartar meðalsíðu, hrokknu og skolhærðu hári, ásamt karlmannlegum hliðarbörtum, segir að vissulega sé allt “inn” í dag varðandi hártísku, en að hans eigin stíll hafi löngum verið undir afar sænskum áhrifum frá elsta bróður sínum, sem og Jónasi ”Joker” Berggren, aðal lagahöfundi sveitarinnar Ace of Base.

“T.d. þegar All that she wants kom út, var ég fránuminn af von um betri tilveru, og var með stutt og sportlegt hár í stíl við ferskleika sveitarinnar, sem þá blés nýjum vindum í poppið, einsog allir muna”, sagði Kristján á sjöunda glasinu sl. laugardag.

“Svo, þegar The Sign kom út, þá náttúrulega umturnaðist ég, og fór að kalla mig öðrum nöfnum, sem vísuðu til míns annars, þriðja og fjórða sjálfs.

T.d. er ég í dag þekktur sem ´handboltamaðurinn áður þekktur sem Bolvíska Stálið´, næturvörðurinn áður þekktur sem ´Stjáni Saxafónn´, og blaðamaðurinn áður þekktur sem ´stjani@mbl.is´.

Ég hef einnig fengið góð ráð í gegnum árin frá frænda mínum og vini, Trausta Salvari, sem er öðrum karlmönnum fremri í allri útlitsumhirðu, en óþol hans gagnvart tónlistarsmekk mínum er það eina sem stendur í vegi fyrir heimsfrægð okkar beggja", sagði Stjáni á áttunda tímanum, og glasinu, aðfararnótt sunnudags.