miðvikudagur, september 09, 2009

Trausti blygðast sín


Gylfi R. Ólafsson fréttaritari Sleikipinnavefjarins í Madrid hefur sent okkur glóðvolga frétt frá Spáni:

Sá fáheyrði atburður átti sér stað nýverið að Trausti Salvar Kristjánsson blygðaðist sín. „Já, er þetta ekki kallað að særa blygðunarkennd? Allavega, mér fannst satt að segja nóg um“ sagði Trausti í samtali við VSP.

Trausti fór í félagi við vini sína og dóttur að horfa á kvikmyndina Brüno þar sem ýmislegt gengur á. Tók þó steininn úr þegar þvagrás var látin tala og syngja. Trausti hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að kynferðis- og feimnismálum en var nóg um þegar þarna var komið sögu.

„Ég held ég hafi bara ekki lent í öðru eins. Mér finnst það hefði átt að mæða (blörra) myndina þarna eða banna hana innan átján eða eitthvað. Ég var með hana dóttur mína með mér og hún fór að háskæla.“

Trausti hefur ákveðið að einbeita sér að Disneymyndum næstu mánuði á meðan blygðunarkenndin jafnar sig. Matthildur Thalía fær ekki að fara í bíó á næstunni.

„Nema, ég þarf náttúrulega að kynna hana fyrir túgörlsvonnköpp. Það er hverju barni hollt. Þegar ég er búinn að því er hún komin í algjört bíóbindindi,“ sagði Trausti að lokum.