föstudagur, júní 19, 2009

Gekk berserksgang á beltagröfu

                                             Húsið að Hlíðarstræti 21, eftir að Orri hafði lokið sér af. 


Orri Örn Árnason, þúsundþjalasmiður, badmintonhetja, og atvinnupókerspilari, gekk á dögunum í skrokk á einbýlishúsinu að Hlíðarstræti 21, Bolungarvík, sem er í eigu félaga hans og frænda, Jóns Steinars Guðmundssonar. 

Forsaga málsins er sú, að Orri taldi sig eiga hönk upp á bakið á Jóni, þar sem hann taldi sig eiga inni hjá honum gamla ógreidda pókerskuld er hljóðar upp á 4500 krónur. Ætlaði Orri aðeins að minna Jón á skuldina, án þess að stofna þó til "leiðinda" og "handalögmála".

"Ja, við erum náttúrulega ágætis félagar, og auðvitað frændur. Þannig að ég vildi ekki vera með neitt of mikið vesen útaf þessu. Ég sé núna að þetta var kannski full dramatískt hjá mér, enda Jón tiltölulega nýbúinn að gera húsið upp á eigin spýtur, he he, fattarðu? Eigin spýtur? Hann er nefnilega smiður sko...!"

Orri sagðist þó ekki vera annað en fórnarlamb í málinu.

"Ja, eins og ástandið er í dag, þá getur maður kannski ekki annað en gert eitthvað slíkt. Ég meina, ég er atvinnulaus í dag og þarf að borga mínar skuldir. Þessi 4500 kall var nokkuð sem ég var búinn að stóla á að fá fyrir mánaðarmót, þannig að þetta er bara keðjuverkun sem leiðir til slíkra atvika, sem eru í raun táknræn fyrir kreppuna sem ríkir í dag. Ég er bara feginn að við stjórnvölinn er ábyrg ríkisstjórn sem er greinilega með allt sitt á hreinu, enda kaus ég Vinstri Græna, ekki bara til að fá hærri skatta, heldur að því að þeir vildu fara inn í ESB, sem er auðvitað hið eina rétta í stöðunni," sagði Orri hróðugur í samtali við blaðamann VSP.