miðvikudagur, mars 08, 2006

Kynþokkafyllsti Vestfirðingurinn valinn

Á bb.is er nú hafin leit að kynþokkafyllsta Vestfirðingnum , bæði í karla og kvennaflokki.

Athygli vekur að Guðmundur Gunnarsson, ríkisstarfsmaður, hefur fjölgað innslögum sínum í sjónvarpsfréttum um helming og er farinn að leysa Gest Einar af í Hvítum Mávum. Einnig heimtaði Guðmundur að lesa íþróttafréttirnar hjá Óla Palla, en það hefur Bjarni Fel gert um árabil. Einnig hefur Guðmundur dýpkað rödd sína töluvert í viðtölum og gengur nú í þykkbotna Buffalo skóm. Guðmundur er einnig eini karlkyns fréttamaðurinn í sögu RÚV sem látið hefur farðað sig, fyrir bæði sjónvarps og útvarps innslög.

Þess ber einnig að geta að Orri Örn Árnason, sóknarmaður í knattspyrnu og húseigandi, hefur beðið yfirvöld um að hraða umsókn sinni um flutning á lögheimili til Bolungavíkur. Orri veit sem víst að bolvískir knattspyrnumenn njóta gjarnan mikillar kvenhylli og vonast hann því eftir að verða gjaldgengur í kosninguna. Heyrst hefur einnig að Orri muni kenna stúlkum á aldrinum 16-34 ára undirstöðuatriðin í hniti, í íþróttasal Bolungarvíkur, á föstudögum kl. 20:00 í vetur.

Kristján Jónsson lífskúnstner hefur einnig gefið kost á sér í keppnina en fær aðeins að keppa í flokki stúlkna. Dómnefnd komst að þessari niðurstöðu eftir fund með Kristjáni og Eiríki hárskera hans, sem hefur minnkað afslátt Kristjáns niður í aðeins 5% (áður 25%)

Trausti Salvar Kristjánsson, fjölriðill, sagðist ekki hafa áhuga á keppninni sem slíkri enda einnar konu maður. Við síðustu talningu hafði Trausta aðeins borist eitt utankjörstaðaratkvæði og var það frá Danmörku.