laugardagur, desember 03, 2005

Roger Moore verður fyrir aðkasti á Íslandi

Leikarinn góðkunni Sir Roger Moore segist hafa orðið fyrir aðkasti er hann heimsótti aðsetur Unicef á Akureyri í dag. Mun ungur maður hafa verið þar aðgangsharður við leikarann og flaggað A4 blöðum fyrir framan hann af miklum móð. Moore sagði þessa upplifun hafa verið mjög einkennilega og slíkt hefði ekki hent hann síðan hann var upp á sitt frægasta: "Maðurinn kallaði sig Trausta og tjáði mér að hann gengi undir nafninu Bond-strákurinn á Íslandi. Hann sagðist vita allt sem enginn þyrfti að vita um Bond-myndirnar og vildi ólmur sýna mér handrit sem hann hefði skrifað að hinni fullkomnu Bond-mynd. Mér fannst þetta sárasaklaust til þess að byrja með, hann vildi fá mynd af sér með mér og svona. En þegar hann var farinn að biðja mig um að tala við Sean Connery fyrir sig og athuga hvort hann gæti reddað sér bikiníinu sem Ursula Andress klæddist í myndinni Dr. No, þá varð mér verulega brugðið. Hann vildi jafnframt að ég kæmi handriti hans áleiðis til framleiðenda. Þegar ég sagðist ekki geta orðið við þessum óskum þá brást hann hinn versti við og sagði að ég væri eitthvað ruglaður", sagði þessi geðþekki leikari í samtali við NFS nú undir kvöldið.
-Tekið af Vísi.is