Setti heimsmet á Facebook
Einn fréttaritara VSP sem er á launum hjá skattgreiðendum, Gylfi Ólafsson, sendi okkur eftirfarandi skúbb:
Trausti Salvar Kristjánsson, kyntákn, fékk í dag skjöld frá Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, þess efnis að hann hefði slegið heimsmet.
„Við erum alveg gáttaðir á þessu,“ sagði Mark í samtali við blm VSP. „Við héldum Trausti væri svona týpa sem væri alltaf að taka myndir af sér með blue-steel svipinn úr Zoolander og henda inn á feisið, en svo lætur hann þessa prófílmynd lifa í 959 daga, eða síðan 11. janúar 2008. Og það er heimsmet, ekki einu sinni afar sem kunna ekki að skipta um prófílmynd láta sína vera svona lengi inni, þeir fá yfirleitt barnabarn til að skipta um mynd þegar þeir ná 900 daga markinu,“ bætti Mark við.
„Ég er hrærður“ sagði Trausti hrærður í þakkarræðu sinni og náði ekki að segja neitt fleira enda klökkur. Þegar hann hafði jafnað sig náði blm tali af honum. „Ég hef fengið ótal skeyti og sms út af prófílmyndinni. Sumum finnst hún gömul og ljót, en miklu fleiri hrósa mér, segja kompósisjónina skemmtilega, að hljómborðið sé þarna óræð vísun í listrænar hneigðir mínar, og svo er svipurinn á mér svona eins og mér sé alveg sama um allt og alla, en á sama tíma er einhver kærleikur, einhver ást, einhver hlýja í augunum,“ sagði Trausti og var blaðamaður ánægður með að vera með vatnsheldan diktófón því glósublokkin eyðilagðist í táraflaumnum.
Næstu skref segir Trausti vera óráðin. „Ég byrja á þúsund dögum, en sá áfangi næst 7. október. Eftir það verð ég bara að sjá til.“
<< Home