mánudagur, desember 20, 2010

Kristján hlýtur Ómarinn

Kristján vakti mikla athygli á EM kvenna í handbolta í Noregi og Danmörku á dögunum. Var hann kosinn vinsælasti íþróttafréttamaðurinn, og skipar sér á stall með ekki ómerkari kollegum en Adolfi Inga og Samúel Erni Erlingssonum, sem eru betur þekktir ytra sem grínbræður, eða brodrene sjov.

Frá fréttaritara VSP í Svíþjóð, Gylfa Ólafssyni.


Kristján Jónsson, íþróttafréttamaður og þúsundþjalasmiður, hefur hlotið hinn eftirsótta Ómar fyrir árið 2010. Ómarinn eru verðlaun sem Blaðamannafélag Íslands gefur árlega þeim fjölmiðlamanni sem gengur í flest hlutverk í starfi sínu en verðlaunin eru nefnd eftir Ómari Ragnarssyni sem er sá fyrsti, og reyndar eini, sem hefur hlotið þau frá árinu 1959.

Kristján Jónsson hefur á árinu tekið fjölmörg viðtöl fyrir margmiðilinn Emmbéedl, þar sem hann „heldur á myndavélinni eins og klettur, stýrir hljóðnemanum af natni, spyr áleitinna spurninga og klippir og vinnur herlegheitin svo fagmannlega að úr verður myndrænt konfekt, sannkallað augnakonfekt“ eins og dómnefnd komst að orði.

„Ég er hrærður,“ sagði Kristján í samtalið við VSP. „Þegar ég var patti langaði mig alltaf til að verða eins og Ómar, með þrjú armbandsúr að taka myndbönd og spyrja spurninga og ganga í öll hlutverk, og nú hefur draumurinn ræst,“ sagði Kristján sem þykir sérlega laginn með öll rafmagnstæki og tól.

Í verðlaun fær Kristján ógangfæra bifreið af gerðinni Suzuki Swift ´83 sem talin er í eigu Ómars Ragnarssonar, 3. seríu af Stiklum á VHS, svitastorkna Adidas íþróttatreyju áritaða af Reyni Pétri Ingvarssyni og 10 tíma ljósakort á sólbaðsstofunni Múlatti á Grensásvegi.