fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kristján útskrifast til þúsundþjalasmiðs

Kristján Jónsson, lífskúnstner, hefur bætt enn einni rósinni í hnappagatið.

Kristján hlaut nafnbótina Þúsundþjalasmiður frá Landssamtökum Verklaginna, þegar hann skipti um dekk á bíl sínum, einn síns liðs í fyrradag, að eigin sögn.

Kristján hefur því einnig hlotið visku og kunnáttu til þess að skipta sjálfur um ljósaperu, kló, og getur loks tekið til í herberginu sínu.

Að vísu þarf Kristján að taka munnlegt próf í Verklagni 203 til þess að hljóta ryksuguréttindi, en hingað til hefur hann notast við gamlan kúst, og gjarnan sópað skítnum undir teppi, eða leður-fótsskemil, nema að þar sé hrúga fyrir, þá hefur hann stolist í Black&Decker handryksuguna , þó svo að hann hafi ekki próf á slíkt tæki.

“Maður fékk nú að taka í handryksugufjandann meðan maður var að djöflast þetta með pabba í gamla daga, en ég hvet engan til þess að reyna þetta heimafyrir, nema með leiðsögn fullorðinna,” sagði Kristján ábúðarfullur.

Kristján er á 28 aldursári.