miðvikudagur, janúar 05, 2005

Framsókn vill meira

Morgunblaðið er talið hafa brotið jafnréttislög þegar Davíð Oddson, sem er einungis utanríkisráðherra, fékk betri stað í Mogganum undir áramótaávarp sitt heldur en Halldór Ásgrímsson, sem er forsætisráðherra. Sérleg undirtylla, aðstoðarmaður og lífvörður Halldórs, Guðmundur Björnsson, sagði í gær að það væri með ólíkindum hversu hliðhollt Morgunblaðið væri Sjálfstæðisflokknum, því ekki hafi Davíð bara fengið betri stað í Mogganum, heldur líka fleiri slög, stærri stafi, og flottari leturgerð heldur en Halldór.

Guðmundur sagðist líka vera með fleiri dæmi um slíkt flokkamisrétti, t.d. hefði Björn Bjarnason fengið mun betri vangamynd af sér en Alfreð Þorsteinsson fyrir borgarstjórakosningarnar síðustu. Einnig sagði Guðmundur að Sjálfstæðismenn ættu flottari höfuðstöðvar, Valhöll, meðan Framsókn þyrfti að sætta sig við efri hæð á skemmtistað á Hverfisgötu, en þar er líka tannlæknastofa, teppahreinsun, og Kebab skyndibitastaður.

Guðmundur sagði einnig að um hugsanlegt samsæri væri að ræða, því árið 1949 hefði barna og unglingatímaritið ABC fjallað um Steingrím Hermannsson og Halldór Blöndal, þar sem Halldór fékk birta 34 bálka vísu aukalega, en Steingrímur, sem ekki var mikið skáld, þurfti að þola þá niðurlægingu að láta birta af sér grettukeppnismyndaþátt sem hann tók þátt í, og vann með yfirburðum á sérstakri "efrivararlyftu".

Hinsvegar benti Guðmundur á að vissulega hefði þetta skilað Steingrími forsætisráðherrastólnum, en Halldór hefði aðeins verið samgönguráðherra.

Guðmundur sagði það svo ósanngjarnt gagnvart Halldóri Ásgrímssyni að nafn Davíðs væri nefnt oftar en Halldórs í fjölmiðlum, og sagði mikla þörf fyrir fjölmiðlalög, sem myndu stemma stigum við slíkt.

Ekki náðist í Davíð Oddson, þar sem hann var niðursokkinn í jólakortaskriftir ásamt konu sinni Ástríði, en það ferli tekur allt árið, sökum fjölda manns í Sjálfstæðisflokknum .

VSP hefur heimildir fyrir því, að Halldór Ásgrímsson og frú byrji á jólakortaskriftum í október.