þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Guðmundi ekki boðið í VIP teitið


Talið er að fatasmekkur Guðmundar sé helsta orsök þess að honum var ekki boðið í teitið, en Guðmundur þykir heldur hallur undir dreifbýlisstílinn.
Guðmundi Gunnarssyni, spænskumælandi skjástjörnu og bolvíkingi, er ekki boðið í umtalaðasta félagsviðburð ársins, VIP teiti Hildar Lífar og Lindu Ýrar á Re-Play um helgina.

Nafn hans er hvergi að finna á gestalistanum sem birtur hefur verið í fjölmiðlum og þykir það renna stoðum undir þann orðróm, að Guðmundur sé einfaldlega ekki nógu frægur ennþá, þrátt fyrir áberandi frammistöðu sem kynnir í undankeppni Eurovision.

"Auðvitað er ég sár og reiður, þetta er annað áfallið sem ríður yfir á skömmum tíma, því ég var ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins á Eddunni um síðustu helgi. En ég er bara bjartsýnn og trúi því að lukkan snúist mér í hag, því bráðum verð ég í ´Hver er maðurinn´ í Fréttablaðinu, og þá ætti þetta að vera komið held ég," sagði Guðmundur ábúðarfullur.