föstudagur, nóvember 05, 2010

Guðmundur er frægasti Bolvíkingurinn


Guðmundur er orðinn þekkt andlit á skjá bolvíkingaGuðmundur Gunnarsson, fjölmiðlamaður, hefur tekið við kyndlinum af Pálma Gestssyni, sem frægasti Bolvíkingurinn, samkvæmt árlegri mælingu Capacent. Árangurinn má helst rekja til þess, að Guðmundur verður næsti kynnir Söngvakeppni Sjónvarpsins, sem er undankeppni Eurovisionkeppninnar sívinsælu.

Guðmundur, sem hefur verið á Topp 20 listanum yfir frægustu Bolvíkingana undanfarin fimm ár, eða síðan hann hóf störf á RÚV, bætist í fríðan flokk Bolvíkinga sem trónað hafa á toppi listanns, á borð við Einar Guðfinnsson, Einar K. Guðfinnsson, Einar Benediktsson, Einar Jónatansson, Elías Jónatansson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigurð Pétursson, Trausta S. Kristjánsson, Birgi Olgeirsson, Kristján Jónsson, og Pálma Gestsson, að ógleymdum Vagnsystkinunum, sem einokuðu toppsætið um árabil.

"Þetta er mikill heiður fyrir mig, ekki síst í ljósi þess að ég hef statt og stöðugt ætlað mér að komast á þennan stað síðan ég hóf störf í fjölmiðlum. En að manni skuli vera fagnað líkt og þjóðhetju í hvert skipti sem ég kem vestur er ótrúleg upplifun. Ég fæ aldrei nóg af því að gefa krökkunum eiginhandaráritun eða tala við almúgann á götu úti. Vissulega er þetta mikið áreiti, ekki síst frá hinum staðbundnu fjölmiðlum, BB og Víkara.is, en ég geri mér þó grein fyrir því að þetta er gjaldið sem ég þarf að borga fyrir frægðina," sagði Guðmundur auðmjúkur í viðtali við blaðamann VSP.