föstudagur, október 27, 2006

Gleymdi kveðjunni












Þór Jakobsson (t.v.) þykir sláandi líkur Nick Nolte


Sá hörmulega vofeiflegi atburður átti sér stað í gær að Þór Jakobsson, séntilmaðurinn siðprúði úr veðurfréttum ríkissjónvarpsins, gleymdi sinni alþekktu handakveðju í lok annars stórfenglegs veðurfréttatíma þar sem frjádagur og týsdagur voru í aðalhlutverki.

Blaðamaður VSP náði tali af Þór eftir atvikið.

BLM: “Þór, hvað klikkaði? “ ÞJ: “ Ja, ég var nýbúinn að spá rigningu fyrir austan og vara ökumenn fyrir norðan við hálku þegar kom að kveðjunni. Ég hinsvegar ákvað að taka meðvitaða ákvörðun um að sleppa handahreyfingunni og kveðja bara með munninum. Kannski gerði ég mér ekki grein fyrir alvarleika málsins og biðst því afsökunar. Ég get nefnilega verið alveg svakalega flippaður sko,” sagði Þór í afsökunartón.

Að sögn Páls Magnússonar útvarpsstjóra er um alvarlegt en einangrað tilvik að ræða.

Þór er reyndur veðurfréttamaður sem þjóðin hefur lært að elska. Hinsvegar virðist hann hafa í örfáar sekúndur misst allt samband við raunveruleikann, því svona gerir aðeins stundarbrjálaður maður í beinni útsendingu. Íslenskir áhorfendur eiga þetta ekki skilið. Þór hefur svikið bæði áhorfendur og sjálfan sig í leiðinni með þessum skrípalátum og hann veit að ef slíkt gerist aftur er tími hans liðinn í sjónvarpi,” sagði Páll alvarlegur í bragði.

Páll bætti einnig við að starfsfólk RÚV væri augljóslega í miklu uppnámi vegna atviksins en hlyti nú áfallahjálp.

Þór Jakobsson mun taka tímabundið leyfi meðan öldurnar lægja en á meðan mun Páll Magnússon fylla í skarð hans.