mánudagur, janúar 10, 2005

Mörður telur Þorstein vera Sjálfstæðismann

Alþingismaðurinn Mörður Árnason, a.k.a Möddi málfræðirokkari eins og hann er kallaður á Ölstofunni, er búinn að komast að því að Þorsteinn Pálsson er hliðhollur Sjálfstæðisflokknum. Nokkur rannsóknarvinna liggur að baki þessari uppgötvun Mödda og hefur hann máli sínu til stuðnings bent á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tilnefnt Þorstein í stjórnarskrárnefndina. Þessi staðhæfing Mödda þykir öll hin merkilegasta og hafa íslenskir fjölmiðlar ekki legið á liði sínu í því að fjalla um hin merku tíðindi. Möddi telur einnig að margra ára formennska Þorsteins í Sjálfstæðisflokknum bendi eindregið til þess að Þorsteinn kjósi flokkinn og sé hreinlega mættur í nefndina á vegum hans. Úr þeim pólitíska jarðvegi sem Möddi er sprottinn þykir ekki góð latína að sendiherrar skipti sér af pólitík, en þó hefur alveg farist fyrir hjá honum að æða í fjölmiðla; þegar sendiherrarnir Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins, Svavar Gestsson fyrrum formaður Alþýðubandalagsins og Eiður Guðnason fyrrum Ráðherra Alþýðuflokksins hafa tjáð sig um íslensk stjórnmál. Það fórst meira að segja alveg sérstaklega fyrir hjá Mödda að tjá sig um ummæli Jóns Baldvins um fjölmiðlamálið og ráðningu Jóns Steinars enda voru þær ekki í takti við það hvernig Jón á að tala.