miðvikudagur, febrúar 23, 2011

Trausti vongóður


"Ég er nú bara að vonast til að frændi sjái um sína" segir Trausti Salvar Kristjánsson, fyrirmynd og tryggingasölumaður. "Hann hlýtur að geta reddað mér um einhverja vinnu."
Sem kunnugt er er Trausti einn umsækjenda um stöðu húsvarðar í félagsheimilinu í Bolungarvík. Trausti sér fram á ljúfa daga á kústinum. "Sigurjón digri er fyrirmyndin að einhverju leyti, þó ég sé nú ekki eins feitur og uppstökkur og hann."
Trausti býst ekki við miklum önnum í nýja djobbinu. "Ætli þetta sé ekki bara að tuða yfir dýrtíðinni, fara í kaffi niðrá höfn og skottast útí Húsasmiðju eftir stormjárnum. Eitt er þó tímafrekt. Það er að með nýbyggingunni við félagsheimilið var byggt yfir aðalslagsmálasvæðið. Það blóð og óþrifnaður sem fór í gagnstéttina og götuna þegar í brýnu skarst og skolaðist burt í næstu leysingum þarf húsvörðurinn nú að skrúbba upp. Það er þó kostur að nú þurfi slagsmálahundar ekki að vera í yfirhöfnum þegar þeir slást, það er svo erfitt að ná blóði úr 66°N úlpum og ullarfrökkum til dæmis. Maður þarf að líta á björtu hliðarnar." Formlegrar ákvörðunar ráðninganefndar er að vænta innan skamms.
Gylfi Ólafsson, tíðindamaður VSP í útlöndum, skrifar frá landi hinna flegnu stuttermabola.