fimmtudagur, nóvember 11, 2004

BB eða Baggalútur?

Á vefvafstri mínu rakst ég á undarlega frétt. Svo undarlega, að ég varð að koma henni að . Fréttin er gömul, en gæti þessvegna verið úr smiðju þeirra Baggalútsmanna, enda blaðamaðurinn skrifaður fyrir fréttinni alkunnur húmoristi...


"Boðið til grænmetisveislu hjá tælenska samfélaginu á Vestfjörðum

Frá skrúðgöngu á tælenskri hátíð á Ísafirði í vor. Vestfirðingar af tælensku bergi brotnir halda þessa dagana grænmetishátíð sem stendur í níu daga og níu nætur og hófst að þessu sinni 25. september. Grænmetishátíðin er upprunnin í Kínaveldi og barst til Tælands á fyrri hluta 19. aldar en margir Tælendingar eiga rætur að rekja til Kína. Eins og nafn hátíðarinnar gefur í skyn er kjöt ekki etið meðan hún stendur. Áhersla er lögð á að neyta grænmetis og rækta hreinleikann. Því vill tælenska samfélagið á norðanverðum Vestfjörðum bjóða öllum á svæðinu að koma í Gamla apótekið við Hafnarstræti á Ísafirði á laugardag milli kl. 15 og 18 og bragða nokkra ljúffenga grænmetisrétti.Pimonlask Rodpitake á Ísafirði segir marga Tælendinga sem eiga ættir að rekja til Kína líta á sig sem Kínverja og því hafi þeir haldið kínverskum hefðum vel við. „Það er trú Kínverja að á þessum tíma fljúgi níu englar sem kallaðir eru Kew Uang Hood Jow um himingeiminn til að fylgjast með hegðun manna á jörðinni og skrá hana niður. Því vilja þeir halda öll boðorð á þessum tíma og borða ekki kjöt.“ Hún segir grænmetishátíðina auk þess góðan sið og hollan en nú á dögum mæla læknar með auknum hlut grænmetis og ávaxta í mataræðinu.Þeir sem taka grænmetishátíðina mjög alvarlega undirbúa sig í þrjár vikur á undan með því að neita sér um sitthvað af lífsins lystisemdum og löstum. Þannig er kjötát aflagt, deilur eru lagðar niður, bannað er að ljúga og samræði skal ekki stundað.kristinn@bb.is"