miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Ávarp vefstjóra

Ágætu vefsíðugestir!

Gerð heimasíðu fyrir Vestfirzka sleikipinna hefur tekið miklu lengri tíma en ætlað var í fyrstu.
Því er beðist velvirðingar á "löngum fæðingarhríðum" og sú ósk sett fram að okkur takist að stíga fyrstu skrefin að samskiptaformi nútímans.

Stutt söguágrip Vestfirzkra sleikipinna verður hér að finna ásamt jólakortum og helgimyndum úr ýmsum áttum. Verið er að ljúka vinnu við nýtt stjórnskipulag og verður það kynnt þegar stjórn félagsins hefur endanlega samþykkt skipulagið. Haft var samband við nokkur fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök á Vestfjörðum og þeim gefinn kostur á að tengjast heimasíðu Vestfirzkra sleikipinna. Þau afþökkuðu gott boð en buðust þess í stað til að styðja dyggilega við félagið með veglegum fjárframlögum.

Ég vil biðja lesendur að hafa í huga að heimasíða verður aldrei fullsamin og þarfnast stöðugt endurnýjunar við. Í fyrstu verður að gera ráð fyrir byrjunarörðugleikum og ýmislegt er enn ókomið til kynningar, - en vonandi tekst okkur - og þá með ábendingum frá lesendum - að bæta úr ágöllum.

Það er von mín að óbreyttir sleikipinnar, Vestfirzkir gleiðipinnar og aðrir landsmenn verði duglegir að senda okkur skilaboð um það sem betur má fara á heimasíðu félagsins.

Verið velkomin á heimasíðu Vestfirzkra sleikipinna!

Kaztro van Basten, vefstjóri